Leikskólar

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 10:18:34 (7429)


[10:18]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér örstutta brtt. við þetta frv. Efnisinnihald hennar er aftur á móti miklu, miklu meira.
    Hver sá sem hefur fylgst með þjóðmálum hefur gert sér grein fyrir því að Íslendingar hafa á undanförnum árum verið að staðfesta ýmsa alþjóðlega samninga þar sem skýrt er kveðið á um að virða m.a. trúfrelsi manna og virða trú annarra. Nú er það svo að í heiminum í dag eru unnin mörg myrkranna verk og á stórum svæðum gerist það að trú annarra er ekki virt. Sums staðar á þeim svæðum jarðarinnar þar sem múhameðstrúin hefur ráðið ríkjum hafa risið upp öfgahópar sem hafa barist mjög grimmt fyrir því að koma í veg fyrir að nokkrum væri vært á þeim svæðum sem ekki aðhylltust múhameðstrú. Árangur þeirra hefur verið sá að þeir hafa skapað í sumum tilfellum víti á jörðu fyrir þá sem hafa viljað aðhyllast önnur trúarbrögð. Okkur er vandi á höndum hvernig eigi að snúast gegn þessu, en aðalatriðið hlýtur þá að vera það að íslenska þjóðin geti sýnt fram á og sannað að hér ríki fullt umburðarlyndi í trúmálum þrátt fyrir að ekki sé dregið í efa að fullur réttur sé til staðar hjá hinum yfirgnæfandi meiri hluta Íslendinga sem aðhyllast kristna trú til þess að tryggja börnum sínum kristið uppeldi. Sá réttur hlýtur að vera til staðar.
    Ein af þeim deilum sem hafa staðið alllengi um forræði yfir börnum, tveimur stúlkubörnum, hefur verið það lengi í umræðunni að ég hygg að allir minnist þess að eitt af því sem faðirinn notaði í þeim vopnaburði var að ætlunin væri að koma í veg fyrir að þær gætu haldið trú sinni. Hér á landi væri slík andstaða gegn múhameðstrú t.d. að það væri hugsun á bak við þetta á þann veg að það væri verið að ráðast að trú þessara tveggja stúlkubarna. Ég tel að Íslendingar þurfi að vera mjög vel á verði í lagasetningu í landinu varðandi það atriði að virða þá samninga sem þeir hafa gert hvað þetta áhrærir og láta ekki hanka sig á því að íslensk lög beri ekki fulla virðingu fyrir trúarbrögðum annarra og taki tillit til þeirra í uppeldisstarfsemi sem hið opinbera stendur að. Þess vegna leyfi ég mér, herra forseti, að flytja þá brtt. sem er á þskj. 1155 og er við 12. gr. þessa frv. og hljóðar svo:
    ,,Á eftir 2. mgr. komi ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. skal leikskólastjóri sjá til þess að börnum, sem ekki tilheyra þjóðkirkjunni, sé sýnd full virðing og að þau hafi aðgang að fræðslu um trúarbrögð sín á sama hátt og börn sem tilheyra þjóðkirkjunni.``
    Nýbúum á Íslandi hefur verið að fjölga og að mínu viti er þetta liður í því að sýna þeim fulla virðingu. Ákvæði 2. gr. sem hér er vitnað til að haldi gildi sínu að öðru leyti en þegar kemur að þessum hópi barna hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Samkvæmt lögum þessum skal meginmarkmið með uppeldi í leikskóla vera að efla kristilegt siðgæði barna . . .  `` Ég legg alls ekki til að það falli út heldur haldi það að fullu gildi sínu þar sem það er en

að hitt bætist við af þeirri ástæðu sem ég hef getið um hér að ofan. Að mínu viti þarf þetta ekki að vera deilumál.