Leikskólar

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 10:30:13 (7431)


[10:30]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það frv. til laga um leikskóla sem er hér til meðferðar sætir í sjálfu sér ekki miklum tíðindum. Það má segja að þær breytingar sem gert er ráð fyrir að gera á frv. séu út af fyrir sig ekki til skaða, flestar heldur í hina áttina, að mínu mati, vegna þess að það er svona heldur verið að þoka málum í þann veg að hin faglega forusta í málefnum leikskólans sé með afgerandi hætti í menntmrn., en aftur á móti sé rekstrarþátturinn með skýrari hætti en verið hefur og er þá langt gengið, hjá sveitarfélögunum og út af fyrir sig ætla ég ekki að setja mig á móti því.
    Í hv. menntmn. kom það fram að Samband ísl. sveitarfélaga er gagnrýnið á veigamikla þætti í þessu frv. Sambandið telur að með þeim ákvæðum sem þar eru sé verið að leggja á sveitarfélögin byrðar sem þau hefðu a.m.k. átt að taka þátt í að ákveða en hafi ekki verið gefinn kostur á að gera. Og það er dálítið merkilegt að hugsa til þess að þegar leikskólalög voru í fyrsta sinn sett á Íslandi vorið 1990 eða 1991 þá gengu fulltrúar Sjálfstfl. mjög fram gegn því frv. vegna þess að það hefði ekki verið talað nógu mikið við sveitarfélögin. Af einhverjum sérkennilegum ástæðum kaus Sjálfstfl. að heyra ekki það sem sveitarfélögin höfðu að segja í þetta skipti og er það athyglisvert, m.a. með hliðsjón af því að Sjálfstfl. hefur forustu í Sambandi ísl. sveitarfélaga.
    Ég held að það sé út af fyrir sig rétt að það þurfi að leita samstöðu um þetta mál víða, bæði við fagstéttir, starfsstéttir leikskólans, ófaglærða líka og við sveitarfélögin einnig þannig að það verði samstaða um það að byggja hér upp leikskóla í landinu. Nú er það komið svo að það sem forðum var heitt ágreiningsefni er í orði kveðnu samstaða um. Það er í orði kveðnu samstaða um það að byggja upp leikskóla. Það er ekki lengra síðan en tveir áratugir eða svo þegar menn deildu um hvort það væri yfir höfuð rétt að byggja upp leikskóla. Það eru ekki nema tveir áratugir síðan ýmsir töldu að það væri beinlínis skaðlegt börnum að vera á leikskólum og alast upp á stofnunum með stórum staf og greini, eins og það var kallað venjulega kuldalegri röddu. Nú eru flestir þeirrar skoðunar að það sé eðlilegt að leikskólinn sé hluti af hinu almenna, sjálfsagða uppeldisumhverfi í landinu, m.a. með hliðsjón af því að heimilin hafa breyst, aðstæður heimilanna hafa breyst og líka með hliðsjón af því að af leikskólunum er mjög góð reynsla. Það hefur komið í ljós að þau börn sem hafa verið á leikskólum eru yfirleitt mjög vel á sig komin þegar þau

koma til náms í grunnskólum 6 ára gömul, eins og byrjunaraldurinn er nú þar.
    Ég tel þess vegna enga ástæðu til þess að leggja stein í götu þessa frv., þvert á móti finnst mér sjálfsagt að styðja það eins og það er. En ég mun spyrja hæstv. menntmrh. við 3. umr. málsins hvað hann ætlar að gera við frv. ef það verður að lögum. Hann er ekki hér núna, en ég mun óska eftir því við 3. umr. að hann upplýsi til hvers hann ætlar að fá þetta frv. afgreitt. Hvaða tíðindi í málefnum leikskólans munu gerast í beinu framhaldi af því að þetta frv. verði að lögum? Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að fá það á hreint því mikið kapp er lagt á málið af hálfu stjórnarsinna þannig að á bak við það hljóta að leynast áform um stórfellda uppbyggingu og átak í leikskólamálum hér í þessu landi.
    Varðandi brtt. hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar segi ég það að ég styð hana, mér finnst hún sjálfsagt mál og ég þakka honum fyrir að flytja hana vegna þess að hann leysir gamla klemmu í þessu máli, ef þessi tillaga yrði samþykkt, 20 ára gamla klemmu, með nokkuð snjöllum hætti. Það hefur verið þannig að ákvæðið um að taka mið af kristilegu siðgæði hefur verið í grunnskólalögum frá vorinu 1974. Þá var flutt brtt. um það efni, að mig minnir af Sjálfstfl., fyrst og fremst með þeim tilgangi að reyna að reka fleyg í raðir þeirra sem studdu að öðru leyti grunnskólafrv. Þá um vorið lá við að það frv. yrði ekki að lögum, vorið 1974. Sjálfstfl. reyndi allt sem hann gat til að stoppa það vegna þess að það var liður í því af hans hálfu að eyðileggja vinstri stjórnina sem þá sat að völdum og hafði setið frá 14. júlí 1971, en það tókst ekki. Auðvitað var samþykkt að taka þarna inn kristilegt siðgæði sem einn af hornsteinum og eitt af grundvallaratriðum skólastarfs. Og ég segi að sjálfsögðu, það liggur í augum uppi að svo hlaut að fara.
    Hins vegar er það svo að í stjórnarskrá landsins eru ákvæði um trúfrelsi og þó að þar sé jafnframt ákvæði um það að lútersk-evangelíska kirkjan sé þjóðkirkja þá er engu að síður líka ákvæði um trúfrelsi. Þannig að ég tel að sú aðferð sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson leggur til að beitt verði í þessum efnum sé í raun og veru tengd við stjórnarskrárgrundvöllinn með mjög skilmerkilegum hætti, annars vegar með því að tengjast þeirri forsendu sem hin lútersk-evangelíska þjóðkirkja byggist á, þ.e. hinum almennu heimspekilegu grundvallaratriðum hennar, og hins vegar er gert ráð fyrir því í brtt. hv. þm. að festa trúfrelsið í lögum líka. Ég skora á hv. þm. að samþykkja þessa tillögu. Þetta er skynsamleg tillaga.
    Það er í raun og veru þeim mun eðlilegra að þessi tillaga verði studd sem hún nýtur stuðnings hv. þm. Guðrúnar Halldórsdóttur. Ég hygg að það hafi verið hún sem vakti fyrst máls á þessu atriði við 1. umr. leikskólafrv. núna á vordögum eða í vetur, á útmánuðum. Hv. þm. Guðrún Halldórsdóttir þekkir til fólks af margvíslegum þjóðernum, margvíslegum uppruna, margvíslegum trúarbrögðum, sem reynt er að þróa með ýmsum hætti til eins góðs sambýlis og kostur er við íslenskt menningarsamfélag. Ég tel þess vegna að það beri að hlýða á hennar orð í þessum efnum, taka mark á þeim. Það geri ég a.m.k. og tel að það séu veigamikil rök í málinu að hv. þm. Guðrún Halldórsdóttir skuli styðja þessa tillögu sem hér er uppi.
    Ég tel sem sagt að frv. sé engan veginn til skaða. Ég styð það fyrirvaralaust, mun greiða því atkvæði, styð þessa brtt. hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar. En ég segi jafnframt að ég ætla að spyrja menntmrh. hvað hann ætlar að gera við þetta frv. ef það verður að lögum, en það geri ég bara við 3. umr.