Viðurkenning á menntun og prófskírteinum

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 10:47:41 (7437)


[10:47]
     Valgerður Sverrisdóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég stenst ekki þá freistingu að spyrja hv. frsm. nefndarálitsins vegna þess sem kemur fram hér á þskj. þar sem segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Undirritaðir nefndarmenn sem voru og eru andstæðingar samningsins um Evrópska efnahagssvæðið geta ekki samþykkt lagasetningu af þessu tagi og munu sitja hjá við afgreiðslu málsins.``
    Þess vegna langar mig að spyrja hv. þm. hvernig hún sér fyrir sér framtíðina ef Kvennalistinn kæmi til með að taka þátt í næstu ríkisstjórn. Þá er ekkert um það að ræða að sú ríkisstjórn kemur til með að þurfa að leggja fram EES-frumvörp. Mér finnst að hún og þessir tveir hv. þm. sem flytja þetta nefndarálit séu með þessu að gefa það í skyn að þeir muni aldrei geta staðið að framlagningu á EES-stjórnarfrumvörpum.