Viðurkenning á menntun og prófskírteinum

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 10:49:00 (7438)


[10:49]
     Frsm. minni hluta menntmn. (Kristín Ástgeirsdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í umræðunni um ESS-samninginn lagði ég ríka áherslu á það að einn af kostum EES-samningsins væru ýmis lög sem honum fylgja, lög af ýmsu tagi því að á ýmsum sviðum er Evrópusambandið komið mun lengra en við. Við getum tekið sem dæmi neytendamál og slíkt og við höfum verið að samþykkja hér lagabálka um þau efni. Það er því alls ekki svo að við kvennalistakonur getum ekki fallist á eða staðið að lagafrumvörpum sem eiga rætur að rekja til Evrópusambandsins ef þar er um góða og eðlilega lagasetningu að ræða. Ég minni á það að við höfum stutt fjölda frumvarpa sem hér hafa verið til meðferðar og tengjast EES-málinu, en það verður auðvitað að líta á hvert tilvik fyrir sig og skoða hvers konar lagasetning þar er á ferð. Hv. þm. þarf því ekki að óttast það að við treystum okkur ekki til að standa að EES-frumvörpum ef í þeim felst góð lagasetning. En mismunun af því tagi sem þetta mál felur í sér get ég ekki fallist á.