Viðurkenning á menntun og prófskírteinum

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 10:51:19 (7440)


[10:51]
     Frsm. minni hluta menntmn. (Kristín Ástgeirsdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Stórt er spurt og ég heyri ekki betur en þingmaður sé kominn hér út í umræður um næstu ríkisstjórn. Hv. þm. veit það auðvitað eins vel og ég að þegar um samsteypuríkisstjórnir er að ræða verða menn að koma sér saman um hlutina. Mér dettur ekki í hug að halda því fram úr þessum ræðustól að ef Kvennalistinn yrði aðili að næstu ríkisstjórn þá mundi hann sífellt vera í andstöðu við ýmis

mál en þó kunna að koma upp tilvik þar sem um svo stór mál er að ræða, mál sem ganga gersamlega gegn stefnu Kvennalistans og þá yrði auðvitað að láta á það reyna. En auðvitað er það rétt sem þingmaðurinn segir að veruleikinn er þessi. Við erum aðilar að samningnum og honum fylgir lagasetning af ýmsu tagi. Ég nefni sem dæmi mál eins og það sem varðar dómstólinn þar sem um er að ræða það sem ég tel vera valdaafsal og þá auðvitað vandast málið.
    En ég ítreka það að í ríkisstjórn verða menn að koma sér saman um hlutina og auðvitað yrðum við að ganga til móts við sjónarmið sem þar eru á ferð.