Viðurkenning á menntun og prófskírteinum

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 10:59:07 (7442)


[10:59]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Frú forseti. Ég ætla ekki að fara að blanda mér inn í þær deilur sem hafa sprottið hér upp hvað eftir annað á milli hv. 9. þm. Reykv. og ýmissa þingmanna Framsfl. út af málflutningi framsóknarmanna um hin ýmsu mál sem hafa verið á dagskrá og ætla ekki að blanda mér í þann ágreining sem allt í einu

er kominn upp og hvað eftir annað kemur upp í ýmsum málum. Ég vildi aðeins af því að hv. 9. þm. Reykv. var ráðherra í þeirri ríkisstjórn sem gekk að þeim kostum sem fyrir lágu þegar ákveðið var að Ísland gerðist aðili að Evrópska efnahagssvæðinu mótmæla þessum málflutningi hans varðandi þær gerðir sem við tókum að okkur að samþykkja á Alþingi sem var hluti af þessum pakka og fylgdi EES-samningnum. Hv. þm. var ráðherra í ríkisstjórn sem samþykkti að hefja viðræður um aðild að Evrópska efnahagssvæðinu með því skilyrði að lagabálkar Evrópusambandsins eða Evrópubandalagsins yrðu teknir sem hluti af þessum samningi. Það þýðir ekkert að koma nú og tala eins og þetta séu einhverjir afarkostir eða einhver nauðung og láta eins og það sé öðrum að kenna þegar hv. þm. sat í þeirri ríkisstjórn sem ákvað þetta og gekk að þessum skilmálum og síðan höfum við starfað í samræmi við það.
    Ég vildi aðeins láta þetta sjónarmið koma fram í tilefni af orðum hans því að hann talaði þannig um þetta mál eins og hann hefði hvergi nærri því komið og bæri enga ábyrgð á því hvernig þessum málum væri háttað.