Viðurkenning á menntun og prófskírteinum

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 11:00:50 (7443)


[11:00]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég læt þessa Staksteina hvergi hrína á mér sem komu fram frá hv. 3. þm. Reykv. Auðvitað er það rétt að fyrrv. hæstv. ríkisstjórn setti af stað og byrjaði þátttöku í viðræðunum um EES með sérstakri samþykkt sem gerð var í febrúar 1989. Hæstv. fyrrv. forsrh., Steingrímur Hermannsson, gerði grein fyrir skilyrðum Íslands í þessum viðræðum í sérstakri ræðu sem hann flutti á ráðherrafundi í Ósló í mars 1989. Þegar niðurstöður úr þessum viðræðum öllum lágu fyrir, sem varð því miður ekki fyrr en eftir að núv. ríkisstjórn tók við, þá lá það alveg fyrir að þau skilyrði sem sett voru þá af hæstv. forsrh. og þáv. formanni Framsfl. höfðu ekki verið uppfyllt og þess vegna varð það niðurstaða okkar margra, m.a. hans, hæstv. fyrrv. forsrh., að það væri ekki hægt að styðja samninginn eins og hann lá fyrir af því að við töldum efnisatriðin ekki vera í samræmi við þær kröfur sem við gerðum þegar lagt var upp.
    Þess vegna er það því miður útúrsnúningur hjá hv. 3. þm. Reykv. að setja málin þannig upp að við í fyrrv. ríkisstjórn höfum borið ábyrgð á lendingunni þó hitt sé vissulega rétt að við hófum könnun málsins því að við erum þeirrar skoðunar eða a.m.k. er ég þeirrar skoðunar að það eigi að kanna mál til hlítar og ekki útiloka hlutina fyrir fram, a.m.k. ekki þetta mál eins og það lá þá fyrir.