Viðurkenning á menntun og prófskírteinum

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 11:08:47 (7449)


[11:08]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Eitt af þeim atriðum sem hv. fyrrv. þm., Steingrímur Hermannsson, lagði áherslu á var stjórnarskrárþátturinn en hinir þættirnir líka. Og ég skora á hv. 3. þm. Norðurl. e. og aðra ágæta þingmenn Framsfl. að kynna sér vandlega ræðu þá sem Steingrímur Hermannsson, fyrrv. forsrh., flutti í Ósló í mars 1989 og bera hana nákvæmlega saman við samningsniðurstöðuna. Þá komast menn auðvitað að þeirri niðurstöðu að samningurinn varð ekki í fullu samræmi við þær kröfur sem gerðar voru.
    Hitt er hins vegar rétt hjá hv. 3. þm. Norðurl. e. að það er sjálfsagt að menn reyni að gera gott úr þessum málum við allar aðstæður eins og kostur er og eins og við alþýðubandalagsmenn höfum ævinlega reynt að gera hvort sem við höfum verið í stjórn eða stjórnarandstöðu. Málið snýst ekki um það. Málið snýst hins vegar um það í dag að það eru uppi hugmyndir um að nálgast Evrópusambandið með alveg nýjum hætti og við alþýðubandalagsmenn teljum að kröfur okkar um tvíhliða samninga sé kannski eina leiðin til þess að losa þjóðina úr þeirri hættu sem byggist á þeirri lestarþörf vonleysisins sem sumir, undir forustu hæstv. utanrrh., virðast vera að leggja í um þessar mundir og ólíklegustu menn eru komnir út á brautarpallinn.