Viðurkenning á menntun og prófskírteinum

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 11:29:15 (7451)


[11:29]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Frú forseti. Þetta var afar sérkennileg ræða að mörgu leyti og á þeim tveimur mínútum sem ég hef til ráðstöfunar get ég ekki farið yfir alla efnisþætti hennar. Þó vil ég láta þess getið, frú forseti, í fyrsta lagi varðandi spurninguna um samningatækni í samskiptum við erlend ríki að það var þannig snemma árs 1989 að ríkisstjórn Íslands ákvað að eiga samleið með EFTA-ríkjunum í samningum við Evrópubandalagið um Evrópska efnahagssvæðið. Eins og hér hefur verið lýst af hv. þm., fyrrv. ráðherra í þeirri ríkisstjórn, hv. 9. þm. Reykv., þá var sú ákvörðun tekin að eiga samleið á þeim forsendum sem lágu fyrir í febrúar og mars 1989. Það var það sem ég ræddi um og þannig stóðu málin þegar gengið var til kosninga 1991.
    Núv. ríkisstjórn tók hins vegar ákvörðun um það á árinu 1992 að eiga ekki samleið með þeim fjórum EFTA-ríkjum sem nú hafa samið um aðild að Evrópusambandinu þannig að við stöndum ekki í sömu sporum við kosningar, sem verða væntanlega í síðasta lagi á næsta ári, og menn stóðu við kosningarnar 1991, að tekin hafi verið ákvörðun um það að eiga samleið með ákveðnum ríkjum í samningum við Evrópubandalagið. Íslenska ríkisstjórnin og Alþingi tók ákvörðun um það á árinu 1992 að standa sérstaklega að samningum við Evrópusambandið og eins og ályktun Alþingis mælti fyrir um 5. maí fyrir réttu ári ætlum við að semja á tvíhliða forsendum við Evrópusambandið um tengsl okkar á grundvelli samningsins um

Evrópska efnahagssvæðið.
    Þetta vildi ég láta koma fram í fyrra andsvari mínu.