Viðurkenning á menntun og prófskírteinum

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 11:39:45 (7457)


[11:39]
     Frsm. minni hluta menntmn. (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Hér hafa orðið meiri umræður um þetta mál en kannski var von á vegna þess að í rauninni er þetta tiltölulega lítið mál. Hér er verið að bæta við það sem gert var á síðasta þingi og þá varð umræða um málið. En vegna þeirrar umræðu sem hér hefur orðið þá vil ég ítreka það að meginrökstuðningur minni hluta menntmn. er einmitt sá sem fram kom í máli síðasta ræðumanns, hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar. Það er þetta að lögin skuli vera svona takmarkandi að eingöngu skuli vera miðað við þessar tilskipanir frá EB í stað þess að horfa á heiminn allan. Það er hér um ákveðna mismunun að ræða vegna þess að í gildandi lögum um ýmsar starfsstéttir eru settar hömlur á það að fólk geti komið hingað til starfa og fólk frá öðrum heimshlutum þarf að gangast undir ýmiss konar próf og þarf að sanna getu sína og það hefur verið afar erfitt að fá viðurkenningu á prófum. En hér er um það að ræða að þeir sem búa á hinu Evrópska efnahagssvæði fá sín próf viðurkennd, það er bannað að mismuna fólki eftir búsetu á hinu Evrópska efnahagssvæði, og hér er um það að ræða að við erum að bæta við það sem samþykkt var í fyrra.
    Ég hef verið að hugsa um það andsvar sem hv. 3. þm. Norðurl. e. veitti áðan þegar hún var eiginlega að hefja stjórnarmyndunarviðræður í beinni útsendingu við Kvennalistann og ekki höfum við á móti því að ræða við Framsfl. og aðra flokka, að sjálfsögðu, um næstu ríkisstjórn. Varðandi það sem hún kom inn á þá er rétt að minna á að við erum enn að afgreiða þann pakka sem tilheyrir samningnum um Evrópskt efnahagssvæði, þ.e. við erum að afgreiða þær tilskipanir sem búið var að samþykkja innan Evrópubandalagsins áður en samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði gekk í gildi. Þegar fram í sækir höfum við kost á því að koma að þessari reglugerðarsetningu þó ég dragi reyndar í efa að áhrif Íslendinga þar á muni verða mikil enda kostar það auðvitað mikla vinnu og mikinn mannafla að fylgjast með öllu því sem gerist hjá Evrópusambandinu og hvað þá að taka þátt í störfum og að reyna að hafa þar áhrif á. Það eru að verða ákveðin þáttaskil í þessum málum og það gildir nákvæmlega það sama um okkur kvennalistakonur og aðra að auðvitað þurfum við að skoða stöðuna í ljósi þeirra breytinga sem átt hafa sér stað og kunna að eiga sér stað ef Noregur, Svíþjóð, Finnland og Austurríki ganga í Evrópusambandið. Auðvitað snerta Norðurlöndin okkur mest. Þá er það auðvitað breytt staða sem við þurfum að skoða og vega það og meta hvernig samninga við gerum þá við þessa aðila sem eru jú svo mikilvægir fyrir öll okkar viðskipti. Auðvitað þurfum við að skoða þessi mál eins og aðrir.
    Ég fæ því ekki séð að Evrópumál séu einhver sérstök hindrun á vegi Kvennalistans í samstarfi við aðra flokka en auðvitað gildir það að skoða þarf hvert mál út af fyrir sig, ég vil ítreka það. En ég legg áherslu á að það eru ákveðin kaflaskil. Við munum koma að reglugerðarsamningu í framhaldinu og ef maður hugsar sér þá stöðu að við kvennalistakonur værum nú komnar í ríkisstjórn, sem vonandi kemur nú að einhvern tímann, þá verðum við auðvitað að vinna í samræmi við þá samninga sem við erum aðilar að. Það hefur alltaf verið grundvallarregla í starfi Kvennalistans að standa við gerða samninga. Við höfum marggagnrýnt það hér á hinu háa Alþingi hvernig ríkisstjórnarflokkar hafa margbrotið samninga eða numið þá úr gildi. Það er grundvallarregla að standa við gerða samninga. Við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd að samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði er genginn í gildi en á meðan við erum að afgreiða þennan pakka sem tilheyrir sjálfum samningnum og við getum engin áhrif haft á þá verðum við að vera samkvæm sjálfum okkur og varðandi þá afstöðu sem kemur fram í þessu nál. sem hér hefur dálítið verið til umræðu, þ.e. nál. minni hluta menntmn., þá höfum við sömu afstöðu og við höfðum í fyrra. Við erum samkvæmar sjálfum okkur. Það er verið að afgreiða tilskipun, ég vil leiðrétta það sem stendur í nál. að þær séu tvær, það er ein tilskipun. Við erum hér að bæta við það sem áður var gert og sú skoðun okkar í minni hlutanum er jafnbjargföst og hún var í fyrra að það hefði verið miklu réttara og eðlilegra að setja víðtæka löggjöf um viðurkenningu á prófum og menntun þannig að fólki væri ekki mismunað eftir því hvaðan úr heiminum það kemur vegna þess að staðreyndin er sú að gildandi íslensk lög á ýmsum sviðum takmarka

það að fólk frá öðrum heimshlutum geti komið hingað og starfað í þeim greinum sem það hefur menntað sig í.