Þjóðminjalög

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 12:07:52 (7460)


[12:07]
     Frsm. minni hluta menntmn. (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. minni hluta menntmn. á þskj. 1215, en ég er ein í þeim minni hluta. Það er svohljóðandi, með leyfi foreta:
    ,,Frv. til laga um breytingu á þjóðminjalögum kom seint fram á þessu þingi en það felur í sér veigamiklar breytingar á skipulagi og stjórn stofnunarinnar. Að dómi minni hlutans gafst allt of skammur tími til að fjalla um málið og ljóst að skiptar skoðanir eru um þær breytingar, sem verið er að gera, meðal þeirra sem komið hafa nálægt rekstri safnsins.
    Svo sem kunnugt er hefur verið illa búið að Þjóðminjasafninu um árabil svo sem sjá má á húsakynnum safnsins sem nú þarfnast verulegra og kostnaðarsamra viðgerða. Allt innra skipulag safnsins, þ.e. sýningar og aðstaða, er afar gamaldags og hvergi nærri í takt við þær hugmyndir sem nú eru uppi um rekstur safna og það hvernig hægt er að gera minjar fortíðarinnar aðgengilegar nútímafólki. Víða um heim hafa

gömul söfn verið endurskipulögð og má nefna sem dæmi um það breytingarnar á þjóðminjasafni Dana í Kaupmannahöfn. Sú framkvæmd var geysilega dýr, en tókst vel og hefur leitt til þess að stöðugur straumur fólks er í safnið, enda spennandi og fræðandi bæði fyrir börn og fullorðna að heimsækja það. Annað dæmi um nútímalegt safn á Norðurlöndum er þjóðminjasafn Álandseyja sem fyrir nokkrum árum fékk verðlaun Evrópuráðsins sem frumlegt og gott safn. Þjóðminjasafn Íslands þarfnast mikillar endurskipulagningar að dómi undirritaðrar, en til þess að það megi takast þarf auk fjármagns gott stjórnkerfi og góðan starfsanda.
    Lögin sem samþykkt voru 1989 og 1991 hafa reynst gölluð og allmikil átök hafa orðið í kringum framkvæmd þeirra, sérstaklega á fornminjasviðinu. Undirrituð fær ekki séð að þær breytingar, sem nú er verið að gera, leysi þann vanda á nokkurn hátt og telur að menntamálanefnd hefði átt að taka sér góðan tíma í málið og leita leiða til að bæta ástandið innan safnsins. Sérstaklega hefði þurft að huga betur að skipan þjóðminjaráðs en undirrituð hefur efasemdir varðandi þá leið sem þar er farin.
    Við meðferð málsins í nefndinni kom í ljós að skiptar skoðanir eru um það atriði að afnema deildaskiptingu safnsins úr lögum. Þar býr að baki ótti um að ákveðinn hluti menningarsögunnar og minjavörslunnar verði út undan, sérstaklega það sem snýr að textíl og íslenskum fatnaði fyrri tíma. Sú deild snertir menningu kvenna sérstaklega og vill undirrituð benda á hve nauðsynlegt er að varðveita og rannsaka þann arf sem felst í vefnaði, hannyrðum og fatagerð kvenna öld fram af öld. Íslenski kvenbúningurinn er kapítuli út af fyrir sig, eitt af okkar sérkennum sem ekki má gleymast þegar í hlut eiga varðveisla og rannsóknir á menningarsögunni.
    Það er augljós kostur fyrir safnið að geta ráðið og breytt deildaskiptingu án þess að til þurfi að koma lagabreytingar, en til að tryggja að ákveðin svið verði ekki út undan mætti skilgreina hlutverk safnsins betur í lögunum. Það verður ekki gert að sinni, því miður.
    Þá komu fram mjög athyglisverðar hugmyndir í umfjöllun nefndarinnar um það hvernig beri að skipa umsjón með fornleifum í landinu. Annars staðar á Norðurlöndunum teljast fornleifar og fornleifarannsóknir til umhverfismála, en ekki hluti af safnrekstri. Með því næst yfirsýn og samhengi milli skipulagsmála, ýmiss konar framkvæmda og varðveislu fornminja. Að þessu sinni gafst ekki tími til að skoða þessar hugmyndir nánar, en þegar kemur að allsherjarendurskoðun þjóðminjalaganna er vert að huga betur að skipan þessara mála.
    Niðurstaða undirritaðrar er sú að betur hefði þurft að skoða skipulagsmál og stjórnkerfi safnsins og að hér sé of geyst farið með því að afgreiða frumvarpið með svo miklum hraða. Þingkonur Kvennalistans leggjast ekki gegn breytingum á þjóðminjalögunum en munu sitja hjá við afgreiðslu málsins.``
    Við þetta er því að bæta, virðulegi forseti, að það er rétt sem fram kom í máli framsögumanns meiri hlutans að flestir sem starfa í safninu og eru í stjórn safnsins telja að þær breytingar sem hér er verið að gera séu til bóta og vissulega eru þær það sumar, en ég verð bara að viðurkenna að ég hef vonda tilfinningu gagnvart þessu. Það er við vandamál að etja innan stofnunarinnar og ég held að við hefðum átt að nota tækifærið til að gefa okkur meiri tíma í að endurskoða lögin og að reyna að taka á þeim vanda sem þar er innan dyra. Þó að þessar breytingar verði gerðar þá er ekki þar með sagt að þær leiði til betri stjórnar á safninu eða betri starfsanda, það veltur auðvitað mjög mikið á því fólki sem verður skipað í nýtt þjóðminjaráð og nýja fornleifanefnd. Þetta eru viðkvæm mál og safnið geldur þess auðvitað hve illa hefur verið að því búið um áratuga skeið.
    Ég ítreka að þetta er svo stór og mikilvæg menningarstofnun að það er auðvitað ekki gott að vera að taka svona búta og búta úr lögum. Ég held að það hefði verið eðlilegra að fara í það verk að skoða lögin í heild. En úr því sem komið er þá vona ég svo sannarlega að þessar breytingar reynist vel og að þær verði til þess að það verði tekið á málum safnsins og auðvitað verður maður að treysta því þegar þeir sem helst fara með stjórnmál telja að þessar breytingar séu til bóta. En ég hefði viljað hafa meiri tíma til að skoða þetta mál.