Sjóður til að styrkja efnilega íþróttamenn

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 14:35:00 (7471)


[14:35]
     Frsm. menntmn. (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hér um ræðir um sjóð til að styrkja efnilega íþróttamenn hefur verið á dagskrá Alþingis nú þrjú þing í röð og hefur notið fleiri flm. en flest önnur mál sem ég man eftir í seinni tíð í þessari virðulegu stofnun þó að raðir þeirra hafi kannski heldur strjálast þegar liðið hefur á. Það hefur hins vegar ekki orðið til þess að spilla fyrir málinu á neinn hátt vegna þess að hv. menntmn. samþykkti samhljóða tillögu á dögunum um að afgreiða málið að vísu til ríkisstjórnarinnar en með jákvæðum hætti þannig að þessi mál varðandi hugsanlegan sjóð til að styrkja efnilega íþróttamenn verði skoðuð í tengslum við nefndarstarf sem er í gangi í ráðuneytinu, m.a. undir forustu íþróttafulltrúa ríkisins, og í tengslum við endurskoðun íþróttalaga.
    Nefndin leggur með öðrum orðum til að það verði samþykkt á þessum forsendum að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar og gerir það samhljóða og hefur að því er ég best veit stuðning 1. flm. og forustumanns í þessari málafylgju í því efni. Ég tel fyrir mitt leyti að hér sé um ágætan áfanga að ræða en ég hef verið flm. þessa máls frá upphafi ásamt hv. 1. flm. og fjölmörgum fleiri mætum samtíðarmönnum. Við leggjum með öðrum orðum til að málinu verði vísað á þessum forsendum til ríkisstjórnarinnar.