Happdrætti Háskóla Íslands

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 14:43:29 (7474)


[14:43]
     Frsm. 1. minni hluta allshn. (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Það er nokkuð ljóst að í því frv. sem hér er til umræðu er lagt til að heimilt verði að fara inn á nýjar brautir í fjáröflun með spilavélum. Það liggur líka fyrir í ljósi umræðna sem orðið hafa í þjóðfélaginu til að mynda á sl. hausti að það er afar umdeilt hvort rétt er að heimila aðilum að taka upp fjáröflun með þessum hætti.
    Afstaða mín til þessa máls er á þá lund að ég get eftir atvikum fallist á að Háskóla Íslands verði heimilt að starfrækja umræddar happdrættisvélar, en vil þó reisa frekari skorður við notkun þeirra en gert er í dag og lagt er til í frv. að verði lögfest.
    Ég hef því ákveðið að skila sér nál. til að lýsa þessari afstöðu og flytja brtt. til að mæta þeirri afstöðu umfram það sem fram kemur í brtt. allshn., sem ég stend að ásamt öðrum nefndarmönnum, um að lögfesta lágmarksaldur þátttakenda.
    Nál. 1. minni hluta er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Með frumvarpi þessu er lagt til að heimilt verði að ganga enn lengra í að leyfa starfsemi happdrættisvéla en verið hefur til þessa og Happdrætti Háskóla Íslands veitt í fjáröflunarskyni frekari veiðileyfi á veikleika samborgaranna en þekkst hefur í íslensku samfélagi.
    Reyndar er skylt að geta þess að fulltrúi happdrættisins upplýsti allsherjarnefnd um að ekki skorti heimildir fyrir þessari starfsemi í núgildandi lögum um Happdrætti Háskóla Íslands og nokkuð er síðan rekstur umræddra véla hófst. Vekja þessar upplýsingar spurningar um tilgang frumvarpsins og hvort það hafi yfir höfuð nokkra þýðingu. Að þeim forsendum gefnum að nauðsynlegt sé að afla lagaheimilda fyrir happdrættisvélunum og samtengingu þeirra vill 1. minni hluti gera grein fyrir afstöðu sinni til málsins.

    Fyrsti minni hluti getur fallist á að rekstur happdrættisvélanna verði heimilaður með eftirfarandi takmörkunum:
    1. Óheimilt verði að starfrækja vélarnar á vínveitingastöðum.
    2. Einungis verði heimilt að samtengja vélar á sama sölustað en ekki milli sölustaða.
    3. Sveitarstjórnir setji ákvæði í lögreglusamþykktir um staðsetningu vélanna og að öðru leyti um önnur skilyrði fyrir leyfisveitingu.
    Verði ofangreindar takmarkanir ekki samþykktar mun 1. minni hluti leggjast gegn samþykkt frumvarpsins.
    Að lokum bendir 1. minni hluti á að full ástæða er til þess að Alþingi taki fjáröflun Háskóla Íslands til umfjöllunar með það að markmiði að finna siðferðilega og ásættanlega lausn sem jafnframt treysti fjárhag skóla á háskólastigi.``
    Ég vil undirstrika það, virðulegi forseti, að ég tel nauðsynlegt í tengslum við þetta mál að Alþingi hugi vandlega að fjárhag skóla á háskólastigi og grípi ekki til breytinga sem raski fjárhagnum eins og hann er og undirstöðum hans, en jafnframt vil ég leggja áherslu á að ég tel að háskólinn sé kominn of langt inn á þá braut sem hann hefur verið á um langt árabil með Happdrætti Háskóla Íslands.
    Það kom auðvitað til álita að leggja til í brtt. 1. minni hluta að fella niður einkaleyfisgjald Happdrættis Háskóla Íslands til ríkisins, sem nemur um 20% af hagnaði happdrættisins og rennur í ríkissjóð, en ástæðan fyrir því að ég legg það ekki til er sú að frv. um það efni, sem var til umfjöllunar í allshn., var afgreitt með samkomulagi nefndarmanna með þeim hætti að vísa því til ríkisstjórnarinnar og mér þykir ekki rétt að standa að því annars vegar og hins vegar að leggja til breytingu í samræmi við tilgang þess frv. við þetta frv.
    Þær brtt. sem ég flyt er að finna á þskj. 1184 og eru í tveimur liðum, hvort tveggja breytingar sem verði á efnismgr. 1. gr.
    Fyrri tillagan er þannig að í stað orðanna ,,og á milli sölustaða`` í lok 1. málsl. komi: en ekki á milli sölustaða. Það er til að undirstrika þá afstöðu mína að ég tel ekki rétt að ganga svo langt að heimila samtengingu vélanna yfir land allt heldur einungis samtengingu véla sem eru á sama sölustað. Þær geta hins vegar numið tugum og hef ég sjálfur komið inn á einn slíkan stað þar sem voru tíu vélar í einni röð og mundi þá samkvæmt þessu ákvæði vera heimilt að samtengja þær tíu. En samtenging sölukassa hefur auðvitað áhrif á vinningsupphæð og áhættuna í málinu.
    Síðari tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Á eftir 1. málsl. komi tveir nýir málsliðir sem orðist svo: Óheimilt er að starfrækja happdrættisvélarnar á vínveitingastöðum. Kveða skal á um staðsetningu happdrættisvélanna og önnur skilyrði fyrir leyfisveitingu í lögreglusamþykkt viðkomandi sveitarfélags.``
    Þarna er í raun um tvær tillögur að ræða. Í þeirri fyrri er lagt til að heimila ekki að þessar vélar verði á vínveitingastöðum. Það er grundvallarafstaða af minni hálfu að heimila ekki starfrækslu þessara véla á vínveitingastöðum. Þar eru menn að gera út á veikleikana. Þar eru menn að markaðssetja fjáröflun þar sem helst er að finna veikleika manna. Og mér finnst það siðferðilega ekki verjandi að ganga svo langt að heimila mönnum að setja vélar upp á stöðum þar sem menn kunna að vera veikastir fyrir og hafa kannski síður en annars staðar dómgreind til að meta áhættuna og það fjármagn sem þeir eyða í þessar vélar.
    Þetta er auðvitað bara mín afstaða og aðrir kunna að hafa aðra afstöðu og ekkert við því að segja, en mér þótti rétt að koma henni rækilega til skila.
    Síðari tillagan kveður á um að í lögreglusamþykktum fyrir sveitarfélög verði kveðið á um það hvar vélarnar megi vera í sveitarfélaginu og hvernig menn öðlist leyfi til þess að starfrækja þær. Það eru nokkur dæmi um það í dag að kveðið sé á um þetta í lögreglusamþykktum og eðlilegt að útfæra heimildarákvæði laga um lögreglusamþykktir þannig, eins og lagt er til í tillögum, og festa það í sessi og fela þar með staðbundnum yfirvöldum, sveitarstjórnum, að marka skýrari reglur um notkun vélanna en löggjafinn ákvarðar.
    Virðulegi forseti. Ég hef lokið að gera grein fyrir afstöðu 1. minni hluta til málsins og ítreka að almennt vil ég taka á málinu með velvilja gagnvart Háskóla Íslands og öðrum skólum á háskólastigi, en það eru þó takmörk af minni hálfu fyrir því hvað ég er reiðubúinn að ganga langt til að heimila fjáröflunarspil í þessu skyni.