Söfnunarkassar

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 15:01:39 (7476)


[15:01]
     Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. frá allshn. um frv. til laga um söfnunarkassa og brtt. við frv.
    Nefndin hefur fjallað um málið. Fékk hún á fund sinn til viðræðna frá dómsmálaráðuneytinu Ólaf W. Stefánsson skrifstofustjóra og Ara Edwald, aðstoðarmann dómsmálaráðherra, Þóri Einarsson, prófessor við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, Esther Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra Slysavarnafélags Íslands, Magnús Snæbjörnsson frá Íslenskum söfnunarkössum, Ólaf Poppé frá Landsbjörgu, Theodór S. Halldórsson frá Samtökum áhugamanna um áfengis- og vímuefnavandann og frá Rauða krossi Íslands Árna Gunnarsson og Sigrúnu Árnadóttur. Þá bárust nefndinni gögn frá Þóri Einarssyni, Íslenskum söfnunarkössum, dómsmálaráðuneytinu og Siðfræðistofnun Háskóla Íslands.
    Á síðasta ári var að undirlagi dóms- og kirkjumálaráðherra gert samkomulag milli Happdrættis Háskóla Íslands annars vegar og Rauða kross Íslands, Landsbjargar, Slysavarnafélags Íslands og Samtaka áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann hins vegar en þessi fern samtök hafa staðið að starfrækslu söfnunarkassa. Samkomulagið var gert í tilefni af deilum sem risu í framhaldi af beiðni Happdrættis Háskóla Íslands um að hefja rekstur á sérstökum samtengdum happdrættisvélum. Varð þessi beiðni og síðar afgreiðsla dóms- og kirkjumálaráðuneytisins á henni m.a. tilefni deilna um lagagrundvöll fyrir rekstri söfnunar- og spilakassa á vegum Rauða kross Íslands og samstarfsaðila þeirra. Við áðurnefnt samkomulag féllst ráðherra á að beita sér fyrir að treystur yrði lagagrundvöllur fyrir rekstri söfnunar- og spilakassa Rauða kross Íslands og samstarfsaðila þeirra og var frumvarp þetta flutt af því tilefni. Í frumvarpinu er lagt til að dómsmálaráðherra verði heimilað að veita Rauða krossi Íslands og samstarfsaðilum þeirra leyfi til að starfrækja söfnunarkassa með peningavinningum. Þar sem nauðsynlegt er að afmarka þá starfsemi gagnvart happdrættisvélum Háskóla Íslands var samhliða flutt frumvarp til laga um breytingu á lögum um Happdrætti Háskóla Íslands, nr. 13/1973, með síðari breytingum, þar sem heimild til þess að nota samtengdar happdrættisvélar er afmörkuð.     Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingu sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.
    Samkvæmt upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu er í þeim lögreglusamþykktum, sem kveða á um spilakassa og leiktæki, miðað við 14 ára aldur, miðað við fæðingarár. Þá var upplýst að á eða við spilakassa Rauða kross Íslands er athugasemd um að börn yngri en 16 ára megi ekki spila í þeim en í leyfum hafi hins vegar ekki verið vikið að aldri. Nefndin lítur svo á að m.a. með tilliti til eðlis þessarar starfsemi sé eðlilegt að lögfesta aldursviðmið þeirra sem nota mega söfnunarkassa og að miðað verði við 16 ára aldur, en að óbreyttu gerir frumvarpið ráð fyrir að kveðið verði á um aldurslágmark í reglugerð.
    Einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til þess að flytja breytingartillögur eða fylgja þeim sem fram kunna að koma.
    Ólafur Þ. Þórðarson og Jón Helgason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins, en undir nál., sem er á þskj. 1156, rita nöfn sín Sólveig Pétursdóttir, Gísli S. Einarsson, Eyjólfur Konráð Jónsson, Ingi Björn Albertsson, Tómas Ingi Olrich, Kristinn H. Gunnarsson og Anna Ólafsdóttir Björnsson. Tvö þau síðastnefndu skrifuðu undir nál. með fyrirvara.