Söfnunarkassar

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 15:18:31 (7480)


[15:18]
     Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég vil bara vegna þeirra athugasemda sem komu fram áðan láta þess getið að þessi mál voru öll rædd vandlega í allshn. og þessi álitamál voru borin undir þann fjölda gesta sem kom á okkar fund og m.a. þær brtt. sem hér hafa verið kynntar. Það er skoðun okkar, alla vega meiri hlutans í nefndinni, að það sé ekki hægt að fallast á þær og það sé mjög erfitt að koma slíkum atriðum við í löggjöf. Varðandi staðsetningu kassanna þá hefur samtengingin verið hugsuð sem helsta greinimarkið milli söfnunarkassa annars vegar og happdrættisvéla HHÍ hins vegar.
    Varðandi samkomulag aðila má líka geta þess að í þeirra samkomulagi í haust var vikið að vínveitingastöðum og almennum spilastofum og fjölda kassa þar en að öðru leyti var ekki samið um staðsetningu og það er mat manna að það sé naumast hægt að festa það í lög.
    Varðandi eftirlitið sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir vék að áðan þá kemur það m.a. fram í gögnum sem allshn. fékk frá Háskóla Íslands að það eru ákveðnar reglur um eftirlit með happdrættisvélum HHÍ og ég ætla ekki að kynna það nánar nema láta það koma sérstaklega fram að bókhald HHÍ fellur undir Ríkisendurskoðun.
    Þá er enn fremur rétt að benda á 2. mgr. 2. gr. í frv. til laga um söfnunarkassa. Þar segir, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Reikningar fyrir innkomið söfnunarfé í söfnunarkössum samkvæmt lögum þessum og rekstur þeirra skulu endurskoðaðir af tveimur löggiltum endurskoðendum og skal annar tilnefndur sameiginlega af þeim félagasamtökum, sem standa að rekstri söfnunarkassanna, og hinn af dómsmálaráðherra. Að lokinni endurskoðun skal eintak af ársreikningi afhent dómsmálaráðherra.``
    Varðandi heitið á frv. sem hafa komið fram athugasemdir um, frv. til laga um söfnunarkassa, þá þykir mér rétt að benda á athugasemdir á bls. 3 í athugasemdum með frv. Þar segir, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Hinn 19. okt. 1993 gerðu Rauði kross Íslands, Landsbjörg, Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann og Slysavarnafélag Íslands með sér samning um stofnun félags um rekstur söfnunar- og spilakassa og aðra fjáröflun. Heiti félagsins er Íslenskir söfnunarkassar (ÍSK) og tók það til starfa 1. jan. 1994.``
    Þar með er komin skýring á þessu heiti að ég hygg. Að öðru leyti vil ég vísa til ítarlegrar greinargerðar með frv. til laga um söfnunarkassa og einkum á fskj. I sem er samningur um stofnun félags um rekstur spilakassa og aðra fjáröflun en þessi samningur er gerður 10. des. 1993.
    Við í allshn. fengum líka ýmis önnur gögn sem sýna hvernig þessir aðilar hafa reynt að fylgjast með því að gætt væri þess aldurslágmarks sem um er rætt. Þar kom fram að m.a. hefur verið sent erindi

til þeirra aðila sem eru með þessa starfsemi og er reynt að fylgjast með að eftirlit sé í lagi. Að öðru leyti vísa ég til þeirra gagna sem koma fram með þessum tveimur frv.