Fangelsi og fangavist

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 15:27:42 (7483)


[15:27]
     Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. frá allshn. á þskj. 1188 við frv. til laga um breyting á lögum um fangelsi og fangavist, nr. 48/1988, með síðari breytingum.
    Nefndin hefur fjallað um málið og fékk um það umsagnir frá Kennarasambandi Íslands, Stígamótum, Stéttarfélagi íslenskra félagsráðgjafa, Fangavarðafélagi Íslands, Læknafélagi Íslands, Fangelsismálastofnun ríkisins og fjármálaráðuneytinu.
    Frv. gerir ráð fyrir breytingum á 2. gr. laga um fangelsi og fangavist, nr. 48/1988, með síðari breytingum, þannig að meðal lögbundinna verkefna Fangelsismálastofnunar ríkisins verði að veita aðstandendum fanga sérhæfða þjónustu, svo sem félagsráðgjöf og sálfræðiaðstoð.
    Í umfjöllun nefndarinnar kom fram að í dómsmálaráðuneytinu er nú, í samvinnu við Fangelsismálastofnun, unnið að gerð frv. til breytinga á lögum um fangelsi og fangavist. Nefndin telur eðlilegt að í þeirri vinnu verði það frv., sem hér liggur fyrir, tekið til skoðunar og leggur því til að því verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Ólafur Þ. Þórðarson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.