Eftirlit Landhelgisgæslunnar innan 200 sjómílna efnahagslögsögunnar

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 15:32:44 (7486)


[15:32]
     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Herra forseti. Þó ég sé stuðningsmaður þessa máls að sjálfsögðu, að verja 200 mílurnar og Reykjaneshrygginn sérstaklega, þá vil ég vekja á því athygli að við eigum miklu meiri réttindi á þessu svæði en við höfum gætt og það er til vansæmdar að við skulum ekki nýta 350 mílurnar á Reykjaneshrygg sem við eigum samkvæmt alþjóðalögum.
    Það var raunar svo að það náðist samkomulag um það með okkur Íslendingum og Rússum, af öllum mönnum, að um 350 mílna landhelgi væri að ræða þar sem væru neðansjávarhryggir, sem gjarnan teygja sig 2.000 eða 3.000 mílur suður í höf. Það var samkomulag að takmarka þessi réttindi við 350 mílur. Það höfum við vanrækt að gera og er til mikillar vansæmdar og þarf að reka á það að þessara hagsmuna okkar sé gætt með öðrum og betri hætti en gert hefur verið. Þess vegna legg ég áherslu á það að þrátt fyrir stuðning við þetta mál, sem er sjálfsagt, þá er hitt málið raunar alveg jafnsjálfsagt, að vinda sér í það að verja 350 mílurnar.