Umboðsmaður barna

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 15:55:58 (7490)


[15:55]
     Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Virðulegi forseti. Vegna þeirra athugasemda er hv. þm. Ingi Björn Albertsson kom með áðan og brtt. sem hann var að kynna, þá vil ég benda á að ég var rétt áðan, um leið og ég gerði grein fyrir nefndaráliti allshn., að skýra frá því að það er einmitt komið til móts við hv. þm. sem flytja þessa brtt. Það er breyting á 2. mgr. 2. gr. sem felst í því að það er fellt brott hæfisskilyrði umboðsmanns um 30 ára aldur. Það þykir óþarflega strangt gagnvart hæfum einstaklingum sem að öðru leyti uppfylla hæfisreglur frv.
    Varðandi 2. gr. að öðru leyti þá koma fram í þeirri grein frv. ákveðnar hæfisreglur og aðaláherslan er lögð á sjálfstæði og hlutleysi þessa umboðsmanns barna sem hér er rætt um. Með leyfi forseta vil ég vitna til athugasemda um 2. mgr. 2. gr. er koma fram með frv. Þar segir:
    ,,Með hliðsjón af verkefnum umboðsmanns barna í frv. þessu og staðsetningu hans í stjórnkerfinu þykir nauðsynlegt að gera kröfu um háskólamenntun. Án efa mun umfjöllun um ýmis lagaleg atriði varðandi börn verða eitt meginverkefni umboðsmanns barna, a.m.k. á fyrstu árum embættisins. Hafi umboðsmaður barna ekki lokið embættisprófi í lögum er talið nauðsynlegt að við embættið starfi lögfræðingur.``
    Hér segir um 3. mgr. 2. gr.: ,,Ákvæði þetta miðar að því að tryggja umboðsmanni barna fjárhagslegt sjálfstæði og virðingu í starfi og því er gert ráð fyrir að Kjaradómur ákvarði laun hans og starfskjör, sbr. lög um Kjaradóm og kjaranefnd. Til að tryggja enn frekar sjálfstæði og hlutleysi umboðsmanns barna er honum óheimilt að hafa með höndum önnur launuð störf og á það jafnt við um störf hjá opinberum aðilum sem einkaaðilum. Æskilegt er enn fremur að sá sem gegnir embættinu hverju sinni hafi ekki með höndum ólaunuð störf eða starfi í þágu félagasamtaka eða annarra hagsmunahópa sem telja verður að samrýmist ekki starfi umboðsmanns barna.``
    Við í allshn. fengum einnig ábendingar frá fleiri aðilum um þetta efni, m.a. frá sifjalaganefnd og því er gerð tillaga um ákveðna viðbót við þessa grein og kemur það nánar fram í rökstuðningi með nefndaráliti allshn. Okkur þótti sem sé nauðsynlegt að leggja áherslu á þessi ákvæði frv. til að tryggja sjálfstæði og hlutleysi umboðsmanns barna vegna þessa mikilvæga starfs sem honum er ætlað að gegna.