Húsaleigubætur

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 16:27:23 (7502)


[16:27]
     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Mál hafa skipast svo frá því að við ræddum þetta mál í gærkvöld að sjónarmið manna hafa mjög hreyfst í átt til þeirra sjónarmiða sem fram komu og fram koma í áliti minni hluta félmn. Það má sjá í frhnál. minni hluta félmn. og brtt. sem því fylgja og það má enn fremur greina glögglega yfirlýsingu hæstv. tveggja ráðherra um málið sem taka undir tvö meginatriði í gagnrýni minni á frv., annars vegar að það væri nauðsynlegt að taka á skattlagningu leigutekna til þess að málið skilaði tilætluðum árangri og í öðru lagi er viðurkennt að í frv. eins og það lítur út er framkvæmdinni þannig hagað að henni verður verulega áfátt og nauðsynlegt að gera bragarbót á. Í yfirlýsingunni er það í raun staðfest að menn muni kanna það og koma fram með breytingar í haust.
    Í ljósi þessara breytinga tel ég ekki ástæðu til að halda við þá tillögu sem ég lagði til í nál. minni hluta félmn. að vísa málinu til ríkisstjórnar, í raun til þess að vinna það betur og leggja fram að nýju nk. í haust. Það markmið sem liggur að baki þeirri tillögu hefur að verulegu leyti náðst og því tel ég ekki ástæðu til að halda mig við þá tillögu og dreg hana til baka.
    Ég vil svo, virðulegi forseti, lýsa yfir ánægju minni með það hvernig mál hafa þróast á þessum degi í þessu ágæta og þarfa máli og vænti þess að áframhald verði á að málið batni eftir því sem umræðan heldur áfram.