Húsaleigubætur

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 16:29:44 (7503)


[16:29]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vil taka undir með þeim samnefndarmönnum mínum sem hér hafa talað og lýsa því yfir að ég tel mjög mikilvægar þessar yfirlýsingar sem fram hafa komið hér, bæði hjá forsrh. varðandi það að ákveðin upphæð húsaleigutekna væri undanþegin skatti, þ.e. allt að 300 þús. kr., og eins yfirlýsing félmrh. að gengið væri til viðræðna við forráðamenn sveitarfélaganna um undirbúning að framkvæmd laganna. Eins tel ég mjög mikilvægt það sem kom fram hjá félmrh. að málefni Búseta væru skoðuð alveg sérstaklega. Þarna tel ég vera komin þau þrjú atriði sem við í minni hluta félmn. höfðum fyrirvara um hér í umræðunni þegar málið kom út úr nefnd, en við skrifuðum þar undir með fyrirvara og hann laut einmitt að þessum atriðum.
    Við vorum þeirrar skoðunar í nefndinni og töluðum sérstaklega fyrir því að húsaleigutekjur yrðu að ákveðnu marki undanþegnar skatti. Við töldum að það hlyti að hafa allnokkurn stuðning í þinginu, m.a. vegna þess að í nefndinni sem vann þetta frv. var hv. þm. Sólveig Pétursdóttir og hún hafði einmitt fyrirvara í nefndinni þar sem hún taldi að það þyrfti að breyta skattlagningu leigutekna til að hvetja til útleigu íbúða í eigu einstaklinga, félaga og félagasamtaka. Þegar við hins vegar í minni hlutanum töluðum fyrir þessu í félmn., og ég tel rétt að það komi fram, þá voru það ekki síst nefndarmenn úr Sjálfstfl. sem lögðust gegn því að eitthvað slíkt yrði tekið inn í nál., þ.e. félmn. lýsti því yfir í nefndaráliti að hún teldi að þetta þyrfti að skoðast. Þá voru það nefndarmenn úr Sjálfstfl. sem lögðust gegn því. Þess vegna kom það nokkuð spánskt fyrir sjónir þegar síðan sjálfstæðismenn komu hér í pontu og töldu þetta vera sína helstu fyrirvara um þetta mál. En þá held ég að öllu réttlæti sé fullnægt og allir hafi náð saman með þeim yfirlýsingum sem hér hafa verið gefnar og ekkert að vanbúnaði að fara að afgreiða málið út úr þinginu sem

ég held, þrátt fyrir ýmsa annmarka sem á því eru, að sé mikil réttarbót fyrir leigjendur í landinu.