Leikskólar

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 17:10:50 (7509)


[17:10]
     Sigríður A. Þórðardóttir :
    Virðulegi forseti. Brtt. sem hér er verið að greiða atkvæði um er efnislega tvíþætt. Annars vegar er gefið í skyn að í 2. gr. frv. séu ákvæði sem ekki tryggi að öllum börnum í leikskólum sé sýnd full virðing. Sá skilningur er fráleitur. Ákvæði greinarinnar um að stuðla að umburðarlyndi og víðsýni barna og efla kristilegt siðgæði með starfi leikskóla tryggja öllum börnum fulla virðingu. Hins vegar kveður brtt. á um að leikskólastjóri skuli sjá til þess að börn sem ekki tilheyra þjóðkirkjunni fái fræðslu um trúarbrögð sín. Engin ákvæði eru um það í frv. að veitt skuli sérstök fræðsla um trúarbrögð umfram það sem segir í 2. gr. að eitt af meginmarkmiðum með uppeldi leikskóla skuli vera að efla kristilegt siðgæði barna og leggja grundvöll að því að börn verði sjálfstæðir, hugsandi, virkir og ábyrgir þátttakendur í lýðræðisþjóðfélagi sem er í örri og sífelldri þróun. Í kristilegu siðgæði felst umburðarlyndi og virðing fyrir öðrum mönnum, skoðunum þeirra og trúarbrögðum. Sams konar ákvæði er einnig að finna í grunnskólalögum. Tillagan er óþörf og ekkert í þessu frv. gefur tilefni til þess að hún sé flutt. Ég segi nei.