Leikskólar

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 17:15:41 (7513)


[17:15]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Á undanförnum þingum og einnig á þessu þingi erum við að veita íslenskan ríkisborgararétt fjölmörgum einstaklingum sem ekki eru kristinnar trúar heldur aðhyllast ýmis önnur trúarbrögð sem við eigum að bera virðingu fyrir. Með þessari brtt. er verið að fella það að í fyrstu uppeldis- og menntastofnun sem börn hér á landi sækja sé það skylda að taka tillit til þess hverrar trúar börnin eru. Það er í sjálfu sér ekki tími til þess að ræða það hér hvort kristilegt siðgæði sé æðra siðgæði búddatrúar eða hindúatrúar en það er þó hægt að færa ýmis sterk rök fyrir því að siðgæði búddatrúar og hindúatrúar séu á ýmsan hátt æðri siðgæði kristinnar trúar. Mér finnst mjög miður að menn skuli leggjast gegn þessari tillögu. Sérstaklega er mér óskiljanlegt að þingmenn Alþfl. skuli gera það og sérstaklega hæstv. utanrrh. sem sérhvern gamlársdag á undanförnum árum hefur sótt heim sem gestur nýbúa hér á landi sem eru ekki kristinnar trúar og heiðrað þá á þessu kvöldi og ég vona að yfirmenn þessara mála endurskoði afstöðu sína á næsta þingi.