Stjórn fiskveiða

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 18:07:45 (7525)


[18:07]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Þingmenn Alþb. leggja fram þessa tillögu til þess að það verði tekið á þeim vanda sem ekki er gert með neinum hætti í tillögum ríkisstjórnarflokkanna, þ.e. að fiski er hent í sjóinn í miklum mæli. Við leggjum til að það megi koma með þann afla að landi og landa honum utan kvóta. Fyrir þann afla eigi að greiða lágt verð þannig að menn geti ekki hagnast sérstaklega á því að gera út á þennan kost en skaðist þó ekki við að koma með fiskinn að landi. Þessi afli verði seldur fullu verði og verðmætismunurinn verði látinn renna í þyrlukaupasjóð. Það hefði kannski verið skynsamlegt á hv. Alþingi að samþykkja þessa tillögu frekar en að fella hana eins og nú virðist vera raunin á þann dag sem menn ákveða að kaupa þessa dýru þyrlu sem lengi hefur staðið til að verði keypt til landsins. Og aftur vil ég minna á það frv. sem 16 þingmenn fluttu hér í Alþingi og hefur ekki fengist rætt.