Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 18:59:19 (7547)


[18:59]
     Svavar Gestsson (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegi forseti. Ég vil segja alveg eins og er að mér finnst málið komið á dálítið nýtt stig ef það er þannig að framkvæmdarvaldið hefur ákveðið að svara ekki þeirri spurningu sem hér var borin fram áðan með jákvæðum hætti. Það setur málið í allt annað samhengi, ekki aðeins veiðistjóramálið og spurninguna um flutning veiðistjóraembættisins heldur líka málið í heild.
    Það er alveg ljóst að þetta mál væri ekki komið þó það sem það er nema vegna þess að stjórnarandstöðuflokkarnir hafa hjálpað til við að afgreiða það. Þess vegna dugir auðvitað ekkert annað en fara fram með sæmilegri mýkt í meðferð málsins, m.a. varðandi þetta tiltekna atriði, þ.e. í sambandi við flutning embættis veiðistjóra. Ég segi alveg eins og er að ef það er botnfallin niðurstaða framkvæmdarvaldsins að neita að svara þessari spurningu játandi, þá er alveg ljóst að málið í heild er í verulegri hættu vegna þess að í þessu svari felst vísbending um það að framkvæmdarvaldið hugsi sér að beita afli í þessu máli.
    Ég skora á hæstv. utanrrh. að skoða málið aðeins betur. Mér er það alveg ljóst að hann hefur kannski ekki átt kost á því að fylgjast með þeirri umræðu sem hefur farið fram um þetta mál að undanförnu þannig að ég get út af fyrir sig skilið það að hann sé ekki inni í málinu í smáatriðum, en ég fullvissa hann um það að þetta er algjört úrslitaatriði varðandi afgreiðslu þessa frv. Svo mikið veit ég um málið og skora á hæstv. ráðherra að endurskoða svar sitt frá því hér áðan.