Störf efh.- og viðskn. og allshn., verkfall meinatækna

154. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 09:07:03 (7554)


[09:07]
     Halldór Ásgrímsson :
    Frú forseti. Út af orðum hv. 6. þm. Suðurl. vil ég skýra frá því að það mál sem hann gerði að umræðuefni hefur verið tekið fyrir í efh.- og viðskn. nokkrum sinnum og rætt. Það hefur verið leitað umsagna, en það er með það eins og sum önnur mál að ekki hefur náðst um það samkomulag í nefndinni að afgreiða það. Ég held að það sé í sjálfu sér ekki nýmæli á Alþingi að ekki náist samkomulag um að afgreiða mál sem þetta. Það er allviðamikið og ég er þeirrar skoðunar að breyting sem þessi hljóti ávallt að vera málefni ríkisstjórnar á hverjum tíma. Það er mjög vafasamt að svo umfangsmikil breyting nái fram að ganga nema viðkomandi ríkisstjórn beiti sér fyrir því. Ég hygg því að það sé líklegast til árangurs fyrir hv. þm. að beita sér í sínum þingflokki og áhrifum sínum sem hann hefur á ríkisstjórn landsins og reyna að ná málinu fram með þeim hætti. Ég held að hann hljóti að gera sér grein fyrir því að það er ekki nægilegt að amast við hv. efh.- og viðskn. út af málinu.