Störf efh.- og viðskn. og allshn., verkfall meinatækna

154. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 09:12:26 (7557)


[09:12]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Hæstv. heilbrrh. gaf þá yfirlýsingu hér á Alþingi fyrir mörgum vikum síðan að verkfall meinatækna væri að leysast. Það er enn óleyst og hörmungarnar sem því eru samfara að ekki hefur verið samið við meinatækna eru margar eins og hér kom fram áðan. Hæstv. heilbrrh. er hins vegar farinn úr landi. Hæstv. heilbrrh. telur greinilega einhvern fund í útlöndum vera merkilegri og mikilvægari heldur en að standa sína ,,plikt`` hér heima og vinna að lausn verkfalls meinatækna. Þegar heilbrigðiskerfið í landinu er meira og minna lamað og þinginu er að ljúka kýs hæstv. heilbrrh. Guðmundur Árni Stefánsson að fara úr landi á fund sem mér er sagt að sé ekki svo mikilvægur að það hefði vel mátt senda einhvern embættismann úr ráðuneytinu til að sitja hann. ( Gripið fram í: Hann fór líka.) Embættismaðurinn fór kannski líka. Það eru sem betur fer fleiri en einn embættismaður í ráðuneytinu.
    Ég vil óska eftir því, virðulegi forseti, eins og kom áðan hjá hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur, að hér fari fram umræður í dag og það komi fram skýringar á því hvers vegna hæstv. heilbrrh. hefur farið úr landi. Það er gersamlega óverjandi að hæstv. heilbrrh. fari úr landi við þessar kringumstæður og sé ekki reiðubúinn hér á Alþingi að svara því hvers vegna yfirlýsing hans, sem gefin var fyrir mörgum vikum, hefur reynst marklaus. Yfirlýsingar sem gefnar eru í þessum ræðustól um að mál séu að leysast eiga að vera trúverðugar. Þeir menn sem hlaupa frá slíkum yfirlýsingum eru hins vegar ekki trúverðugir og ég krefst þess, virðulegi forseti, að sá ráðherra Alþfl., sem kannski er hæstv. utanrrh. líka og safnar nú á sig öllum ráðuneytum Alþfl. vegna þess að utanfararsýki hinna ráðherranna er slík að þeir geta ekki verið við lok þingsins, komi hér og standi fyrir máli sínu svo að hægt verði í dag að taka þetta mál til meðferðar og hæstv. forsrh. líka svo að við getum fengið skýrar yfirlýsingar um það hvort það er virkilega rétt sem hefur heyrst hvíslað hér í baksölum að það eigi að beita bráðabirgðalagavaldinu skömmu eftir að þingið er farið heim.