Störf efh.- og viðskn. og allshn., verkfall meinatækna

154. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 09:15:19 (7558)


[09:15]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég er satt að segja nokkuð undrandi á þeim tíðindum sem ég heyri hér að hæstv. heilbrrh. sé horfinn úr landi. Ekki það að ráðherra geti ekki þurft að sækja merkilega fundi heldur er staðan þannig að hæstv. heilbrrh. hafði þessa miklu deilu, meinatæknadeiluna, yfir höfði sér. Auk þess er það svo að hann hafði fallist á það í viðtali við mig að það færi fram utandagskrárumræða um málið í hálftíma eða svo áður en þinginu lyki. Ég er því satt að segja alveg gáttaður á þessum tíðindum ef hæstv. ráðherra hefur hlaupið frá þessu verki, ekki bara meinatæknadeilunni sem er auðvitað aðalatriðið heldur líka því að hugsanlega færi fram utandagskrárumræða um málið áður en þinginu lyki nema hann hafi beðið einhvern alþýðuflokksráðherranna um að yfirtaka verkið fyrir sig.
    Ég tek undir það sem hv. 18. þm. Reykv., Kristín Ástgeirsdóttir, sagði áðan að staðan í þessari deilu er alveg hrikaleg. Ég hef setið í þessari stofnun um nokkurt skeið og aftur og aftur orðið fyrir því að hópar fólks hafa þurft að hafa samband út af margvíslegum málefnum. Ég hef sjaldan orðið var við eins alvarlegar ábendingar og út af meinatæknadeilunni. Það er fjöldi fólks sem hringir, liggur mér við að segja jafnt á nóttu sem degi, og vekur athygli á því hvað deilan sé alvarleg. Ég sá það í fjölmiðlum í fyrradag, að ég held, að deilan væri að leysast. Nú sýnist málið allt vera komið í hnút aftur og það er ekki hægt að fara héðan út úr þessari stofnun áður en það fæst botn í þetta mál. Þess vegna óska ég eftir því og tek undir það með hv. 8. þm. Reykn. að hér verður að fara fram umræða utan dagskrár um þetta mál og ræða það

við fjmrh. auðvitað, sem er yfirmaður samningamála, og viðkomandi fagráðherra sem gegnir í forföllum hæstv. heilbrrh.