Þjóðminjalög

154. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 09:26:42 (7564)


[09:26]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Svo vill til að hv. menntmn. hefur á fundum sínum staðið frammi fyrir því og einnig þegar hún hefur verið að ræða þetta frv. um þjóðminjalög að hæstv. menntmrh. hefur verið fjarri þá umræðu að mestu leyti. Ágætt samkomulag náðist í hv. menntmn. um afgreiðslu þessa máls og ber að þakka öllum hlutaðeigandi fyrir það hvernig þeir stóðu að máli að mínu mati. Hv. 18. þm. Reykv., Kristín Ástgeirsdóttir, benti á ýmis atriði sem betur mættu fara í þessu máli og nauðsyn þess að endurskoða þjóðminjalögin í heild í framhaldi af þessari niðurstöðu.
    Í tilefni af því að hæstv. menntmrh. er nú staddur hér hefði ég viljað leggja fyrir hann tvær spurningar. Í fyrsta lagi þá spurningu hvernig og hvenær hann hyggst beita og framkvæma þau lagaákvæði sem gerð er tillaga um í frv. til þjóðminjalaga. Ég held að það sé mjög æskilegt að fá um það upplýsingar hvernig hæstv. ráðherra sér það fyrir sér, m.a. vegna þess að hæstv. ráðherra getur samkvæmt orðanna hljóðan í þessum texta ráðið því hver verður formaður þjóðminjaráðs og það er ekki hægt að neita því að ýmsir bera vissan ugg í brjósti gagnvart því hvernig á þeim málum yrði hugsanlega haldið af hálfu hæstv. ráðherra að fenginni reynslu. Þess vegna vil ég inna eftir því hvaða stefnu hæstv. ráðherra hefur varðandi það að nýta þau ákvæði sem í frv. eru að svo miklu leyti sem það snertir ráðherrann eða athafnir hans beint.
    Í öðru lagi vildi ég inna hæstv. menntmrh. eftir því hvernig hann hugsar sér að standa að áframhaldandi endurskoðun þjóðminjalaganna því að það var í raun og veru full samstaða um það í nefndinni og kemur fram í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar sem ég stend að að það sé nauðsynlegt að endurskilgreina markmið þjóðminjalaganna og endurskoða þau í heild á nýjan leik með hliðsjón af fenginni reynslu þó að hún sé ekki mjög löng.
    Ég hefði sem sagt viljað spyrja hæstv. ráðherra um þetta tvennt úr því að hann er staddur hér við 3. umr. málsins.