Þjóðminjalög

154. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 09:38:24 (7568)


[09:38]
     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil við þessa umræðu lýsa ánægju minni með það að sú niðurstaða hefur fengist sem hér liggur fyrir og það ber að fagna því að hv. menntmn. skuli hafa náð svo vel saman í þessu máli sem raun ber vitni um. Það er alveg ljóst að það var nauðsynlegt að gera breytingar á þjóðminjalögunum til þess að bæta um það sem þar hefur verið. Mér sýnist að þessi breyting sem hér er gerð eigi að vera nægjanleg til þess að hægt verði að koma á góðu skipulagi og góðu starfi í Þjóðminjasafni og vil nota tækifærið og þakka hæstv. menntmrh. fyrir það frumkvæði sem hann að sjálfsögðu hefur haft í þessu máli og flutt um þetta breytingar sem hér verða væntanlega og vonandi samþykktar.