Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

154. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 09:59:18 (7576)


[09:59]
     Ólafur Ragnar Grímsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Það kom fram seint í gær að starfandi umhvrh., hæstv. utanrrh., íhugaði að gefa út ákveðna yfirlýsingu um það að veiðistjóraembættið yrði ekki flutt nema með samþykki Alþingis. Hvort sú yfirlýsing væri gefin eða ekki gæti haft áhrif á umfjöllun um þetta mál við 3. umr. Ég er þess vegna nokkuð undrandi á því, hæstv. forseti, að þetta mál er tekið til umræðu án þess að starfandi umhvrh. sé viðstaddur umræðuna. Eitt er nú það að umhvrh. fer úr landi og telur ekki mikilvægt að fylgja eftir þessu frv. Annað er svo það að starfandi umhvrh. telur heldur ekki mikilvægt að vera viðstaddur þessa umræðu þó að við sem höfum lagt vikur og mánuði í það í nefndinni hér í vetur að vinna að þessu frv. eigum ýmis erindi við þann sem ber ábyrgð á þessu ráðuneyti. Ég vil mælast til þess við virðulegan forseta að þessari umræðu verði frestað þar til einhver sem ber ábyrgð á umhvrn. er viðstaddur þessa umræðu. Ég tel það fullkomna vanvirðu bæði við þá þingmenn sem láta sig þetta mál miklu varða og eins við okkur í umhvn. sem höfum lagt mikla vinnu í það að gera þetta frv. ráðuneytisins þannig að það sé a.m.k. þingtækt, að halda eigi þessari umræðu hér áfram án þess að nokkur ábyrgðaraðili af hálfu ráðuneytisins sé viðstaddur.