Leikskólar

154. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 11:09:54 (7599)

[11:09]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Ég hafði hugsað mér að taka til máls í lok umræðunnar og svara fyrirspurnum sem til mín hefði verið beint og gera kannski athugasemdir við einstök ummæli manna, en ég ætla nú að reyna að stilla mig sem mest um það ef það mætti þá verða til þess að róa aðeins umræðuna sem hefur farið satt að segja dálítið úr böndunum finnst mér. Ég hafði t.d. ekki hugsað mér að ræða um trúarbragðastyrjaldir úti í heimi þegar við værum að ræða hér um frv. um leikskóla uppi á Íslandi og ætla að sleppa því, en koma þá að nokkrum atriðum sem ég hef verið spurður beint um og kannski nokkrum athugasemdum sem mér þykir nauðsynlegt að gera við mál einstakra þingmanna.
    Hv. þm. Svavar Gestsson talaði um að í raun og veru breytti þetta frv. litlu frá því sem er um gildandi lög. Þetta væri staðfesting á þeirri menntastefnu sem fram kæmi í lögunum frá 1991. Það er vissulega mikið til í því hjá hv. þm. að hér er ekki verið að bylta neinu. Þetta frv. byggir í raun og veru á alveg sömu hugmyndafræði og það frv. og uppeldisáætlun fyrir leikskóla sem gefin var út fyrst 1985 í ráðherratíð Ragnhildar Helgadóttur og endurútgefin í ráðherratíð hv. þm. Svavars Gestssonar. Þannig að þar er ekki svo sem um neina byltingu að ræða. Ýmsar breytingar eru þó í þessu frv. og ég nefni þar það sem tekið er fram strax í 1. gr. að leikskólinn sé fyrsta skólastigið í skólakerfinu og sé fyrir börn undir skólaskyldualdri. Þetta út af fyrir sig er t.d. nýtt, var ekki í gildandi lögum, kveðið beint á að þetta væri fyrsta skólastigið þó það væri ekki skólaskylda.
    Þá eru líka nokkrar breytingar sem fylgja samþykkt þessa frv. varðandi stjórn leikskólans og þar sem kveðið er beint á um í 9. gr. að fulltrúar starfsfólks og fulltrúar foreldra eigi rétt til setu á fundum leikskólanefndar. Í gildandi lögum er talað um að sveitarstjórn geti falið félmn. að fara með málefni leikskólans. Það er ekki slíkt beint ákvæði í þessu frv. sem tryggir þá um leið að fulltrúar starfsfólks og foreldra eigi fasta setu á fundum þeirrar nefndar sem falin er stjórn leikskólans af viðkomandi sveitarstjórn.
    Hv. þm. spurði hvenær ég mundi setja reglugerð. Ég mun að sjálfsögðu snúa mér að því strax og frv. hefur verið samþykkt, sem ég vona auðvitað að verði hér fyrir þingfrestun, að undirbúa setningu þeirrar reglugerðar. Eins og ég nefndi, ég held að ég hafi nefnt það sérstaklega við 1. umr. málsins, þá munu þar sérstaklega kallaðir til fulltrúar frá sveitarfélögunum til þess að semja þá reglugerð sem 6. gr. kveður á um og að sjálfsögðu verða þar líka kallaðir til fulltrúar frá leikskólakennurum og skólastjórum. Þetta ætti sem sagt að geta farið af stað þegar eftir samþykkt frv.
    Hv. þm. nefndi vinnubrögðin í sambandi við samningu þessa frv. sem dæmi um ólýðræðisleg vinnubrögð í menntmrn. Þessari fullyrðingu vísa ég á bug. Það var nefndin sjálf sem setti sér sínar vinnureglur. Það komu engin fyrirmæli úr menntmrn. um það hvernig starfshættir nefndarinnar skyldu vera og engin fyrirmæli um það frá ráðuneytinu að einhverju skyldi haldið leyndu innan nefndarinnar um það sem þar var verið að vinna. Þannig að ég vísa því á bug að þar sé um ólýðræðisleg vinnubrögð af hálfu ráðuneytisins að ræða, það er einfaldlega ekki rétt.
    Án þess að ég ætli að fara að ræða sérstaklega tillögu hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar, tillögu sem felld var hér í gær --- ég er víst því miður ekki með tillöguna hjá mér --- en mér finnst ekki rétt og það er ekki heimilt að gagnálykta, að vegna þess að sú tillaga hafi verið felld þá megi ekki sýna börnum foreldra sem aðhyllast önnur trúarbrögð en kristna trú umburðarlyndi. Það er alls ekki heimilt að gagnálykta svona, það gengur bara ekki. Í því samhengi bið ég menn líka um að lesa 2. gr. alla, ekki eingöngu þá setningu sem fjallar um að efla skuli kristilegt siðgæði barna. Í 2. gr. er löng upptalning á því hvert sé markmið með uppeldi í leikskóla og þar er margt fleira tiltekið heldur en bara það að efla kristilegt siðgæði.
    Ég sé ekki að það séu neinir þröskuldar í veginum með að framkvæma þessi lög þrátt fyrir þetta ákvæði, ef ég má orða það svo, þrátt fyrir þetta ákvæði. Að það hafi í för með sér einhverja sérstaka hættu á því að börnum í leikskóla stafi einhver sérstök hætta af þessu ákvæði, mér er alveg ómögulegt að skilja svona málflutning eða svona spurningar.
    Um tillögu hv. þm. Guðrúnar J. Halldórsdóttur vil ég aðeins segja það að mér skilst að það hafi ekki gefist færi á því að ræða þá tillögu í hv. menntmn. Ég bendi í þessu sambandi á það sem hv. þm. Petrína Baldursdóttir raunar benti á að námskeið hafi verið haldin fyrir ófaglært starfsfólk leikskóla og ekki ástæða til að ætla annað en framhald verði á því. Ég nefni svo sérstaklega það sem segir í athugasemdum við 12. gr. frv. Með leyfi hæstv. forseta, les ég það:
    ,,12. gr. tekur til menntunar þeirra er sinna uppeldi og menntun barna í leikskólum. Gert er ráð fyrir því að sveitarstjórn setji þeim og öðru starfsfólki leikskóla erindisbréf.``
    Ég mundi vilja lýsa því hér yfir að ég vildi hvetja til þess að erindisbréf um þessi efni yrðu sett sem fyrst og mér sýnist hægurinn hjá að taka á þessum málum þar, um menntun hins ófaglærða starfsfólks í leikskólum. Og ég spyr nú hv. þm. Guðrúnu J. Halldórsdóttur hvort hún gæti ekki fallist á það að þannig mætti taka á þessum málum nú og hún gæti þess vegna dregið tillöguna til baka til þess að greiða fyrir afgreiðslu málsins.
    Herra forseti. Ég held að það sé ekki fleira sem ástæða er fyrir mig að nefna hér sérstaklega, en bið hv. þingmenn um að stilla málflutningi sínum í hóf þannig að okkur takist að afgreiða þetta mál fyrir þinghlé.