Leikskólar

154. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 11:20:00 (7600)


[11:20]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir þau svör sem hann veitti við þeim spurningum sem ég bar fram. Það er út af fyrir sig rétt hjá honum að það eru nokkrar yfirlýsingar sem fram koma í þessu nýja lagafrv. sem ekki eru í gildandi lögum um leikskóla, en þær breyta sjálfkrafa engu fyrir leikskólann. Þær birtast ekki í hinu hversdagslega starfi inni í leikskólunum á Íslandi nema það verði gerðar ráðstafanir af hálfu ráðuneytisins til að fylgja því eftir og það kom ekki fram í svari hæstv. ráðherra, því miður, með hvaða hætti hann hyggst gera það.
    Í öðru lagi þakka ég honum fyrir að lýsa því yfir að reglugerðarvinnan verði hafin strax í samráði við viðkomandi aðila. Hann mótmælti því í þriðja lagi að viðhöfð hefðu verið ólýðræðisleg vinnubrögð við undirbúning þessa máls, sagði að ráðuneytið hefði ekki lagt svo fyrir. Ég þakka honum fyrir þær upplýsingar. Ég gæti svo sem nefnt honum önnur dæmi um ólýðræðisleg vinnubrögð en ætla ekki að gera það í þessum andsvarstíma. Í fjórða lagi finnst mér mikilvægt varðandi þá brtt. sem felld var í gær og spurt var um hér og rædd hefur verið um skeið, að hæstv. ráðherra komst þannig að orði að þrátt fyrir ákvæði 2. gr. yrði sýnt umburðarlyndi varðandi aðra hópa barna sem væru inni í leikskólunum. Og þessi orð ,,þrátt fyrir`` eru að mínu mati mjög mikilvægt innlegg í þá hugmyndalegu umræðu sem staðið hefur hér um málið um skeið.
    Ég endurtek þakkir mínar til ráðherrans fyrir svörin, en segi svo að allra síðustu að ég tel að það sé mikilvægt að við, í framhaldi af þessu, ræðum rækilega, þó síðar verði, um menntun leikskólakennara, hvort hún verður flutt á háskólastig eða ekki. Það er sennilega eitt allra brýnasta málið í framhaldi af samþykkt þessa frv., ef að lögum verður, að við förum rækilega yfir þau mál.