Leikskólar

154. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 11:28:10 (7605)


[11:28]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir að hafa gefið þá yfirlýsingu hér að við samningu reglugerðar verði tryggt og vandlega hugað að því að réttur foreldra og barna sem aðhyllast önnur trúarbrögð verði tryggður. Ég held að þessi umræða hér í dag og í gær sé ágætis ábending fyrir menn til þess að huga að því að kannski er fleira í íslenskri löggjöf sem ekki samrýmist þeim breytingum sem eru að verða á okkar þjóðfélagi, að það er vaxandi fjöldi einstaklinga sem aðhyllist önnur trúarbrögð. Ég vil nefna t.d. baháítrúarbrögð sem eru fyrst og fremst siðræn trúarbrögð í eðli sínu og Baháísöfnuðurinn á Íslandi er fyrst og fremst skipaður Íslendingum en ekki nýbúum. Þannig er hægt að nefna ýmis fleiri dæmi.
    En ég vona að við getum treyst því að hæstv. menntmrh. muni huga að þessu, eins og hann lýsti hér yfir, í reglugerðinni, en síðan væri skynsamlegt að menn hefðu þetta í huga þegar gengið er frá frumvörpum í framtíðinni.