Leikskólar

154. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 11:29:31 (7606)


[11:29]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Eins og ég hef margsagt í öllum umræðum um leikskólafrv., því það vill svo til að ég hef verið við allar þessar umræður, þá álít ég að þetta sé gott frv. og höfuðmarkmið þess séu góð og ég vil stuðla að því að þau náist og þetta frv. nái fram að ganga. Í ljósi þess flutti ég raunar þessa tillögu. Á bls. 8 í greinargerðinni með frv. stendur eins og hæstv. menntmrh. vitnaði í: ,,12. gr. tekur til menntunar þeirra er sinna uppeldi og menntun barna í leikskólum.`` Í ljósi þess lagði ég þessa tillögu fram.
    Það hefur komið í ljós við umræðurnar að þessa hlið málanna þarf að athuga gaumgæfilega og þar sem hæstv. menntmrh. hefur heitið að stuðla að því að í erindisbréfum um starfsmenn leikskólanna komi fram menntunarmöguleikar og menntunarstaða þeirra, bæði faglærðra og ófaglærðra og það eru þeir ófaglærðu sem ég er að hugsa um núna, þá leyfi ég mér að draga þessa tillögu mína til baka í von um það að leikskólafrv. nái fram að ganga og í von um að það flýti fyrir störfum þingsins það sem eftir lifir af þessum degi.