Lyfjalög

154. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 11:37:51 (7609)

[11:37]
     Sólveig Pétursdóttir :
    Virðulegi forseti. Heilbr.- og trn. hefur haldið sérstakan fund um þetta mál og var ákveðið að flytja sérstaka brtt. milli 2. og 3. umr. Enn fremur minni ég á yfirlýsingu hæstv. heilbr.- og trmrh. um skipan sérstakrar nefndar.
    Fyrir hönd meiri hluta heilbr.- og trn. vil ég nú gera grein fyrir þessum breytingartillögum sem eru á þskj. 1266.
    1. Lögð er til orðalagsbreyting á 2. gr. þannig að enn skýrar verði kveðið á um hvernig gjaldtöku þeirri sem ákvæðið gerir ráð fyrir verði háttað. Þannig komi skýrt fram í ákvæðinu sjálfu að leggja skuli árlegt eftirlitsgjald á fyrirtæki og stofnanir sem Lyfjaeftirlit ríkisins hefur eftirlit með en við bætist að setja skuli í reglugerð nánari ákvæði um eftirlitsgjöld og innheimtu þeirra að fengnum tillögum Lyfjaeftirlits ríkisins.
    2. Þá eru lagðar til tvenns konar breytingar á ákvæðum til bráðabirgða. Hin fyrri felur í sér að heilbr.- og trmrh. geti þrátt fyrir ákvæði í núgildandi lögum um að lyfsöluleyfi falli niður í lok þess árs sem leyfishafi verður sjötugur framlengt lyfsöluleyfi viðkomandi þangað til ný lagaákvæði um lyfsöluleyfi ganga í gildi þann 1. nóv. 1995.
    Síðari breytingin varðar frestun á gildistöku þeirra kafla frv. sem varða lyfsöluleyfi og ákvörðun lyfjaverðs til 1. nóv. 1995. Þá er einnig tekið fram að sá hluti 30. gr. frv. sem fjallar um ákvörðun þóknunar fyrir lyfjaafhendingu dýralækna taki gildi þann 1. nóv. 1995 eða á sama tíma og ákvæði um ákvörðun lyfjaverðs ganga í gildi.