Auðlindakönnun í öllum landshlutum

154. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 11:51:09 (7615)


[11:50]
     Frsm. iðnn. (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 190 var flutt till. til þál. um auðlindakönnun í öllum landshlutum af þingmönnum Kvennalistans. Hv. iðn. fjallaði um málið og fékk fjölmörgum aðilum tillöguna til umsagnar og gerir tillögu um að henni verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Nefndin fékk um hana umsagnir frá Orkustofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands og héraðsnefndum Borgarfjarðarsýslu, Suðurnesja, Múlasýslu, Dalasýslu, Skagfirðinga og Ísafjarðarsýslu.
    Í nál. segir:
    ,,Nefndin telur brýnt að fram fari rækileg auðlindakönnun á Íslandi til þess að skapa grundvöll fyrir mótun auðlindastefnu til framtíðar. Hér er í senn um að ræða atvinnumál og umhverfismál sem snerta allan efnahagsgrundvöll þjóðarinnar. Nefndinni er hins vegar ljóst að slík könnun er kostnaðarsöm. Nefndin telur því heppilegt að á þessu stigi verði stjórnvöldum falið að láta gera áætlun um kostnað við slíka auðlindakönnun og leggur því til að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar.``
    Undir þetta rita auk mín Sigríður Anna Þórðardóttir, Finnur Ingólfsson, Tómas Ingi Olrich og Pálmi Jónsson.