Stytting vinnutíma

154. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 12:01:20 (7619)


[12:01]
     Frsm. félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. frá félmn. á þskj. 1086 um till. til þál. um styttingu vinnutíma. Tillagan er um að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir styttingu vinnuvikunnar með það að markmiði m.a. að skapa fleiri störf.
    Nefndin hefur fjallað um málið á tveimur þingum og fékk um það umsagnir á 116. og 117. löggjafarþingi frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Vinnumálasambandi samvinnufélaganna, Alþýðusambandi Íslands, Kvenfélagasambandi Íslands, Starfsmannafélagi ríkisstofnana, Jafnréttisráði, Bandalagi háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna og Vinnuveitendasambandi Íslands.
    Eftir umfjöllun sína leggur nefndin til að tillagan verði samþykkt með svofelldri breytingu:
    ,,Tillgr. orðist svo:
    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera skýrslu um þær aðgerðir sem gripið hefur verið til á meðal Evrópuþjóða, einkum annarra norrænna ríkja, sem miða að styttingu vinnutíma og fjölgun starfa. Í skýrslunni verði gerð grein fyrir eðli og umfangi aðgerða, kostnaði og árangri eftir því sem upplýsingar frá stjórnvöldum, aðilum vinnumarkaðar eða alþjóðastofnunum gefa tilefni til.``
    Undir nál. skrifa allir nefndarmenn í félmn. án fyrirvara.