Fjáraukalög 1993

154. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 12:16:29 (7625)


[12:16]
     Frsm. minni hluta fjárln. (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) :

    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1993, sbr. lög nr. 115/1993. Þetta nefndarálit er frá minni hluta fjárln. og, með leyfi forseta, ætla ég að fara yfir það:
    Nefndin hefur haft til athugunar frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 1993 og hefur skoðað það í framhaldi af fjáraukalögum fyrir þetta ár sem áður hafa verið samþykkt og vitnað er til. Í frumvarpinu kemur fram að greiðslur úr ríkissjóði eru allmiklu lægri en heimildir gerðu ráð fyrir í fjáraukalögum fyrir árið 1993. Það sem við bendum helst á sem athugavert við þetta er að við þau fjáraukalög sem voru samþykkt í desember koma núna fram, við þessi fjáraukalög, þetta endanlega greiðsluuppgjör, mikil frávik. Við teljum nokkuð óeðlilegt að ekki sé hægt að sjá í desember hvernig greiðsluheimildum sé háttað og hægt að hafa það fjáraukalagafrv. sem þar er verið að afgreiða nær raunveruleikanum en það hefur orðið.
    Við umfjöllun um þetta frv. var óskað eftir afstöðu fjmrn. er varðar bréf frá ASÍ, þar sem fram komu athugasemdir við framlög til atvinnuskapandi framkvæmda sem ríkisstjórnin lofaði fyrir árið 1993. Í bréfi ASÍ er því haldið fram að allt að 1.800 millj. kr. vanti upp á að staðið sé við gefin fyrirheit.
    Það er mjög mikið af greiðsluheimildum sem er fært á milli ára og nokkuð af þessu er hugsanlega þar inni, en eftir sem áður stendur sú fullyrðing ASÍ að það sé ekki búið að standa við þessi fyrirheit og hafði ekkert svar borist við því þegar þetta nefndarálit var skrifað.
    Síðan er bent á að minni hlutinn hafði fengið þær upplýsingar að lækkun rekstrarútgjalda sjúkrahúsanna í Reykjavík frá árinu 1991--1993 næmi um 600 millj. kr. Í bréfi fjmrn. frá 7. apríl sl. kemur fram að lækkunin er aðeins 390 millj. kr. þegar tekið hefur verið tillit til flutnings á verkefnum á tímabilinu. Það gerir einmitt það að verkum að ríkissjóður getur sýnt fram á betri greiðslustöðu um áramót. Það er verið að færa verkefnin fram yfir áramót og þá sýnir það sparnað miðað við sjóðsstöðuna en sparnaðurinn er ekki raunverulegur ef aðeins er verið að flytja verkefnin á milli ára.
    Þá er í svari ráðuneytisins tekið fram að aðeins er miðað við greiðslutölur en ekki raunveruleg rekstrarútgjöld stofnana. Því geti aukafjárveitingar vegna rekstrarhalla fyrri ára átt eftir að skekkja myndina og raunverulegur sparnaður því enn minni en þessar tölur segja til um.
    Við teljum það nauðsynlegt og leggjum áherslu á það í minni hluta fjárln. að betri og nákvæmari upplýsingar liggi fyrir við afgreiðslu fjáraukalaga á hverjum tíma. Þá á ég við fyrri fjáraukalög sem taka á útgjöldum í viðbót við samþykkt fjárlög. Við teljum að þær upplýsingar eigi að geta verið betri en hefur komið í ljós núna á síðustu tveimur árum við fjáraukalagagerð þannig að það þurfi ekki að vera svona mikil frávik á endanlegu uppgjöri, það er auðvitað verið að ljúka hér endanlegu uppgjöri, og að þau frávik séu innan eðlilegra marka. Við teljum að þau frávik sem nú eru sýnd bæði á þessu frv. og því fyrra við lok ársins 1992 hafi sýnt það að þessi frávik eru ekki óeðlileg en það mikil að við teljum að það eigi ekki að vera hægt að vinna það betur.
    Það hefur oft verið vitnað til þess í umræðu um fjáraukalög og gagnrýni okkar í nefndarstarfinu um þetta að það sé orðið erfiðara að segja fyrir um þessa stöðu um áramót vegna þess að nú sé verðbólgan í lágmarki og menn séu orðnir því vanir að þetta fari alltaf meira fram úr en gert sé ráð fyrir, en þá er því til að svara að ég tel að það sé tími til kominn að ríkissjóður, sem á að vera í forsvari og hafa forgöngu um öll ríkisfjármál, sé í stakk búinn til að semja sig að raunveruleikanum og hafa þessar tölur í meira samræmi við raunveruleikann.
    Í ljósi þess sem ég hef verið að lýsa og snertir afgreiðslu á fjáraukalögum þá höfum við í minni hluta fjárln. ákveðið að sitja hjá við atkvæðagreiðslu um málið. Undir þetta nefndarálit, sem ég hef lýst nokkuð en ekki lesið frá orði til orðs, rita ásamt mér hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, Jón Kristjánsson, Guðmundur Bjarnason og Guðrún Helgadóttir.