Stjórn fiskveiða

154. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 12:24:15 (7626)


[12:24]
     Frsm. meiri hluta sjútvn. (Vilhjálmur Egilsson) :
    Virðulegi forseti. Það kom fram í umræðum og við atkvæðagreiðslu í gær að meiri hluti sjútvn. hygðist flytja brtt. við 7. gr. frv. eins og það stendur nú. Efni brtt. er að kveða á um annars konar takmarkanir á framsali aflamarks en var í fyrri brtt. sem var dregin til baka. Þá er nú gert ráð fyrir því að frambúðarskipulag málsins verði með þeim hætti að það sé óheimilt að flytja meira aflamark til skips á hverju fiskveiðiári en nemur aflamarki því sem skipinu var úthlutað í upphafi árs á grundvelli aflahlutdeildar sinnar. Það er með öðrum orðum tekin upp svokölluð tvöföldunarregla sem í rauninni setur þak á það hvað skip getur veitt mikið miðað við það aflamark sem því er úthlutað í upphafi ársins. Skip getur með öðrum orðum aðeins tvöfaldað sinn úthlutaða kvóta.

    Þetta mun væntanlega hafa þau áhrif að skipum mun fækka og varanlegar aflahlutdeildir munu færast á færri skip. Þetta kemur fyrst og fremst við mjög kvótalítil skip sem þá verður annaðhvort að úrelda eða að flytja meiri varanlegan kvóta á þau.
    Það má líta á þetta mál í samhengi við þær breytingar sem lagðar eru til í frv. til laga um Þróunarsjóð þar sem styrkir til úreldingar eru auknir.
    Hluti af þessu máli er að þetta frambúðarfyrirkomulag öðlist fyrst gildi 1. jan. 1996. Á meðan þetta fyrirkomulag er ekki komið í gildi, þ.e. frá því að fiskveiðiárið næsta hefst þann 1. sept. til 31. des. 1995, er gert ráð fyrir því að svokölluð 15% regla sé við lýði, en hún var rædd allmikið við 2. umr. um málið.
    Það má segja að 15% reglan hafi sólsetursákvæði og sé með sama gildistíma og ákvæði frv. til laga um samstarfsnefnd, en þar er gert ráð fyrir því að þau lög falli úr gildi 31. des. 1995 og að á þeim tíma muni sjómenn og útvegsmenn ráða frambúðarskipan sinna mála til lykta í kjarasamningum og væntanlega verður þá fjallað um þessi mál á sama tíma.