Stjórn fiskveiða

154. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 12:27:46 (7627)


[12:27]
     Halldór Ásgrímsson :
    Frú forseti. Eins og kom fram í gær, þá tel ég að þær breytingar sem hafa verið fluttar við þetta mál séu til verulegra bóta. Ég hef verið þeirrar skoðunar að það væri eðlilegt að taka framsalsreglurnar til endurskoðunar, en hins vegar hef ég verið andvígur því að taka upp svokallaða 15% reglu og jafnframt talið óþarft að vera að þrengja meira en er í dag það aflamark sem getur verið á einstökum skipum. Ég tel ákvæði núgildandi laga vera fullnægjandi í því sambandi, sérstaklega með tilliti til þess að nú hefur verið ákveðið að af svokölluðum fiskvinnslukvóta verði ekki. Þar af leiðandi fagna ég því að þessar reglur, bæði að því er varðar það og 15% reglan, gilda í reynd ekki nema eitt ár og aðilar geta þá reynt að skipuleggja sín mál út frá því vitandi það að reglan fellur niður. Það mun að sjálfsögðu auðvelda slíkt skipulag þegar menn eru þess meðvitaðir að þetta mun falla niður.
    Það hafa ýmsar aðrar breytingar orðið sem ég tel vera til bóta eins og að þrengja ekki það sem má flytja á milli ára og bæta þar við að jafnframt megi flytja 20% aflamark tegunda eins og humar og síld á milli ára. Ég skil það svo að þetta þýði að þeir aðilar sem hafa ekki og munu ekki veiða allar sínar heimildir á því fiskveiðiári sem nú er geti geymt 20% fram til næsta fiskveiðiárs. Ég tel að það sé mikilvægt að þetta sé alveg skýrt því að þessi ákvæði taka gildi 1. sept. 1994 en ég lít þannig á og vænti þess að framsögumaður meiri hlutans sé tilbúinn að staðfesta það að þó að þessar reglur taki gildi 1. sept. 1994, þá varða þær geymslurétt frá fiskveiðiárinu þar á undan. Ég held að það sé afar þýðingarmikið fyrir aðila að hafa það ljóst.
    Þegar upp er staðið í þessu máli og málið metið í heild þá má út af fyrir sig segja að það séu tiltölulega litlar breytingar gerðar á lögunum um stjórn fiskveiða nema að því er varðar þessi framsalsatriði. Það er því í reynd aðalniðurstaða þessa máls að lög þessi eru fest í sessi tiltölulega lítt breytt og ég er þeirrar skoðunar að það sé af hinu góða og mikilvægt að Alþingi hafi staðfest málið með þeim hætti. Með því er eytt mikilli óvissu sem hefur ríkt í málinu núna undanfarin þrjú ár miðað við þá miklu umræðu sem hefur verið um það og þær hástemmdu yfirlýsingar sem hafa komið frá ýmsum þingmönnum um hvað þetta skipulag er ómögulegt. Ég tel að þessi umræða hafi leitt það í ljós að það er ekki á dagskrá neitt annað skipulag sem getur komið í staðinn fyrir það sem við höfum búið við nema þá að menn vilji fórna að verulegu leyti þeirri hagkvæmni sem hefur tekist að byggja upp.
    Ég mun hins vegar við endanlega afgreiðslu þessa máls sitja hjá m.a. vegna þess að ég tel að framsalsreglurnar hafi verið óþarflega mikið þrengdar og kannski sérstaklega vegna þess að við styðjum ekki frv. til laga um Þróunarsjóð sem eru mjög tengd þessu máli. Einnig höfum við gagnrýnt það frá upphafi að fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafa ekki verið með í undirbúningi málsins eins og við höfum talið vera eðlilegt. En afstaða okkar þingmanna Framsfl. kom að öðru leyti fram í atkvæðagreiðslu um málið hér á Alþingi í gær þar sem við studdum veigamiklar greinar í þessu máli en sátum hjá við örfáar.
    Ég vil taka það fram að ég er ekki mjög ósáttur við niðurstöðu málsins, þ.e. frv. til laga um breytingar á stjórn fiskveiða. Ég tel ýmislegt í þessum breytingum vera til bóta en mikilvægast af öllu tel ég að óvissunni sé eytt. Við höfum gagnrýnt það lengi hvað þetta hefur tekið langan tíma og þess vegna hljóta allir að fagna því að niðurstaða skuli loks vera að fást og það er niðurstaða sem ríkir bærileg sátt um hér á Alþingi sem ég tel vera mikilvægt fyrir framhald málsins því að hér er um löggjöf að ræða sem við eigum væntanlega eftir að búa við um langa framtíð. Auðvitað verður hún ávallt til umfjöllunar og endurskoðunar og einhverjar breytingar munu þurfa að eiga sér stað, en ég lít þannig á að með þessari niðurstöðu hafi það í reynd verið staðfest að hér sé komin löggjöf sem verði búið við í öllum meginatriðum um langa framtíð og það er að sjálfsögðu mikilvægt fyrir útveginn og sjávarútveginn að hafa einhverja vissu inn í framtíðina til þess að geta skipulagt sín mál með fullnægjandi hætti.
    Ég tel að sú mikla gagnrýni sem hefur verið uppi í málinu að því er það varðar hvernig þetta kerfi hefur reynst hafi ekki átt við mikil rök að styðjast. Auðvitað eru margir gallar á fiskveiðistjórnarkerfinu, en ekki hefur verið sýnt fram á með neinum rökum að annað kerfi geti tekið við sem leysi þetta af hólmi

nema að efna til verulegs uppnáms í efnahagsstarfsemi landsins.