Verkfall meinatækna

155. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 13:37:39 (7637)


[13:37]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Hér er vissulega verið að fjalla um langvinna og erfiða kjaradeilu sem nauðsynlegt er fyrir alla aðila að fá lausn á. Vissulega vekur þessi deila miklar áhyggjur og þá örugglega ekki síður hjá meinatæknum en öðrum sem hafa þurft að heyja harða baráttu fyrir leiðréttingu á sínum kjörum. Ég held að það sé alveg ljóst að meinatæknar hafa dregist aftur úr öðrum sambærilegum stéttum og að það sé réttlætanlegt og almennt viðurkennt að það sé tilefni þarna til leiðréttingar á kjörum meinatækna án þess að það hafi fordæmisgildi almennt á launamarkaðnum.
    Ég tel að þegar slitnaði upp úr samningaviðræðum fyrir um viku hafi málsaðilar verið komnir mjög langt með að ná niðurstöðu sem gefur tilefni til að ætla að það vanti aðeins herslumun til að ná niðurstöðu í þetta erfiða mál. Ég hygg að hæstv. heilbrrh. hafi verið í góðri trú þegar upp úr slitnaði fyrir um viku síðan að lausn væri að fást í málinu. En það er alveg ljóst að það verða allir málsaðilar að vinna hratt og vel að lausn þessa máls. Það er erfitt að horfa upp á að deilan dragist lengur og ég legg mikla áherslu á að allir aðilar taki nú höndum saman um að fá lausn í þessa deilu.