Verkfall meinatækna

155. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 13:46:09 (7641)

[13:46]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Svavar Gestsson spurði hæstv. fjmrh. að því hvað hann hygðist gera í þessu máli. Hæstv. fjmrh. og reyndar hæstv. félmrh. líka svöruðu báðir: Við vonum að þessi deila leysist. Við vonum það líka. En til að hún leysist þarf að grípa til aðgerða. Laun meinatækna eru á milli 70--80 þús. kr. á mánuði. Það er nú ekki meira eftir mikla menntun, háskólamenntun, og mikla ábyrgð. Fyrir 17 dögum sagði hæstv. heilbrrh.: Deilan er að leysast hafið ekki áhyggjur, deilan er að leysast. Og svörin sem fást hér í dag eru: Við vonum að deilan leysist. Við verðum að fá aðgerðir, hæstv. fjmrh. Ég held að það sé nokkuð ljóst að sú nefnd sem er að starfa í þessu máli á vegum ríkisins sé óhæf. Það er kominn slíkur hnútur í málið að hæstv. fjmrh. og starfandi heilbrrh. verða að ganga í málið. Þannig standa málin í dag.