Fjáraukalög 1993

155. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 14:41:28 (7648)


[14:41]
     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Það verður að byrja á þakkarávarpi vegna seinni hluta ræðunnar. Það var hinn ljósi punktur í því sem hv. 7. þm. Norðurl. e., Sigbjörn Gunnarsson, flutti hér. En fyrri hlutinn var alveg afleitur. Hafirðu veitt manni heimild til að gera eitthvað á ákveðnu ári þá er það ekki eilífðarheimild. Það er mikil bjartsýni að halda því fram. Ef við höldum áfram má þá skilja að þetta sé örvæntingarfull tilraun á lokaklukkustundum þingsins til þess að ná þessu valdi af fjmrh. svo hann noti þetta bara ekki í sumar og ausi þessu út? Nei, hv. þm. hristir höfuðið vegna þess að hann veit að þetta fjárlagaár er liðið. Það er ekkert á dagskrá að menn eyði í dag peningum út úr ríkissjóði sem þeir höfðu heimildir til að gera á seinasta ári. Við samþykkjum ríkisreikning og þannig lokum við hverju ári fyrir sig. Þetta vita allir. En vegna þess að seinni hluti ræðunnar var góður og yfirlýsing um að hér verði flutt frv. og tekið á þessu þá ætla ég ekki að fara í frekari umræður um þetta mál að þessu sinni.