Fjáraukalög 1993

155. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 15:00:29 (7651)


[15:00]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég er ekki viss um að ég geti verið sammála hv. 1. þm. Vesturl. um að svona miklar framfarir hafi orðið í meðferð ríkisfjármála. Það er að endurtaka sig sagan sem hv. 8. þm. Reykn., Ólafur Ragnar Grímsson, lagfærði þegar hann var fjmrh. að ríkisreikningur yrði afgreiddur nokkurn veginn jafnóðum og hann barst. Sú var tíðin að hæstv. þáv. fjmrh. lagði fram tíu ríkisreikninga til samþykktar á hinu háa Alþingi í einu og má nú geta nærri hvern áhuga þingmenn höfðu á þeirri framlagningu.
    Nú er sama sagan að gerast. Hér er á dagskrá í dag ríkisreikningur fyrir árið 1991 og fyrir 1992 og það er augljóst að það eru þessi tvö mál sem á að ýta út af dagskrá þingsins svo að unnt sé að ljúka þingi þannig að við erum komin með halann á eftir okkur aftur.
    Varðandi síðustu fjáraukalög ársins 1993 hlýt ég að benda á það að við samþykktum fjáraukalög í desember 1993 og síðan koma lokafjáraukalög þar sem farið er fram á að breyta fjárlögum um hvorki meira né minna en 4 milljarða. Og maður spyr sig í forundran: Sáu þessir góðu menn ekki í desember að þarna voru allt of miklir peningar? Hvers vegna í ósköpunum getur annað eins og þetta gerst?
    Ég hef nefnilega efasemdir, hæstv. forseti, um ágæti þeirrar breytingar að nú geta hinar ýmsu stofnanir og ráðuneyti fært peninga yfir á næsta ár. Rökin voru þau áður að ef þetta væri ekki hægt mundu menn eyða öllu sem þeir höfðu fengið til þess að þurfa ekki að skila því aftur. Nú sýnist mér að það séu að færast milljarðar króna yfir á næsta ár og í sannleika sagt án þess að það komi augljóslega fram við gerð fjárlaga. Menn eru sem sagt að safna sjóðum í hinum einstöku stofnunum og til hvers? Ég get ekki séð að þetta komi fram þegar sest er við gerð fjárlaga svo að mitt heilræði er að menn hefðu þetta eins og í Menntaskólanum í Reykjavík í gamla daga þegar ég starfaði þar og var send með 25 þús. kr. á gamlársdag til að skila aftur af því að það var ekki notað á árinu. Var það þáverandi virðulegur rektor Menntaskólans í Reykjavík, Kristinn Ármannsson, sem hafði sitt bókhald í lagi og sendi ritara sinn með 25 þús. kr. vegna þess að hann bar virðingu fyrir fjármunum íslenska ríkisins. Nú safna menn þessu í sjóði ár frá ári. Ég held að þetta sé argasta vitleysa og ég held að það eigi að afleggja þetta. Mér þykir það enda dálítill dómur á þá sem fara með ríkisfjármál að sé þessi háttur ekki hafður á, þá eyði menn bara öllu sem þeir hafa fengið til þess að eyða því. Ég ætla að vona að þetta séu ósanngjarnar ásakanir.
    Eins og menn sjá segir í nefndaráliti frá minni hluta fjárln. sem liggur fyrir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Enn fremur bendir minni hlutinn á að þær fjárhæðir, sem yfirfærðar eru á milli ára, hafa farið verulega vaxandi, en yfirfærsla fjármuna frá árinu 1993--1994 nemur 1,9 milljörðum kr.``
    Eru menn í vandræðum með að kaupa eina þyrlu? Hún kostar ekki nærri svona mikið. Það er ekkert annað en sækja peningana þangað sem þeir liggja og kaupa þyrluna strax, svo að eitthvað sé nefnt.
    En það er sérkennilegt hlutverk að sitja í hv. fjárln. Alþingis vegna þess að allan tímann er ekið yfir mann. Hæstv. farsællega fjarverandi heilbr.- og trmrh. munar ekki mikið um að tilkynna það hverjum sem heyra vill að nú ætli hann að byggja eitt stykki barnaspítala. Hann hefur ekki rætt það við mig. ( Gripið fram í: Sjálfur?) Og ég sit í hv. fjárln. Mér er stórlega til efs að hann hafi rætt það við formann nefndarinnar. Okkar fyrstu viðbrögð voru að spyrja: Hvað þýðir þetta? Þýðir þetta að hætt sé við að ljúka K-byggingunni? Læknar spítalans birtast á sjónvarpsskjánum skelfingu lostnir og segja: Hvað er maðurinn að gera? Ætlar hann að hætta við K-bygginguna? Einn maður uppi í ráðuneyti þarf nú ekki að hafa langa starfsreynslu til þess að gefa svona yfirlýsingar. Auðvitað er þetta argasta bull. Auðvitað fær maðurinn ekkert að gera þetta og ekki er ég þar með að hafa á móti því að byggður verði barnaspítali, en ég held að það sé ansi stór biti að gera hvort tveggja í einu.
    Í gær barst hv. nefnd bréf þar sem bent er á leigukostnað opinberra stofnana og ég verð að játa að ég er ekki endurskoðandi. Ég get ekki fylgst með fjármálasukkinu hjá þeim sem það stunda. En þar er bent á að Lánasýsla ríkisins, sem er nýfarin úr eigin ríkishúsnæði, húsnæði sem ríkið sjálft á, hefur gert leigusamning við einstaklinga hér í bæ, eina af efnuðum fjölskyldum bæjarins, til ársins 2001. Leiguskilmálarnir eru 600 kr. á fermetrann á meðan flestar aðrar ríkisstofnanir sem í leiguhúsnæði eru greiða frá 350--385. Og maður spyr sig í forundrun ( ÓÞÞ: Hver er þessi merkilega fjölskylda sem fær þetta?) Ég held að það geti ekki skipt máli. Þetta húsnæði er á Hverfisgötu 4--6. ( ÓÞÞ: Þetta hljóta að vera sérstakir gæðingar.) Ég hygg að þingmaðurinn viti mætavel í hvers eigu það hús er. ( Gripið fram í: Hvenær er samningurinn gerður?) Ætli það sé ekki svona ár síðan. Ég skal ekkert lasta menn sem eiga húsnæði þó að þeir reyni að ná góðum leigjendum. En maður hlýtur að spyrja sig: Hefði þessari góðu stofnun ekki verið nær að vera kyrri eða vera þar sem húsnæði var fyrir hendi og ríkið átti sjálft? Það væri sjálfsagt hægt að finna ýmist húsnæði sem ríkið á meðan það er að borga háa leigu fyrir stofnanir sínar. Auðvitað nær þetta engri átt.

    Og af því að við ætlum að fara að ræða hér á eftir skuldastöðu heimilanna, þó að það séu smámunir sem ég ætla nú að gera að umtalsefni, þá yrði maður ekkert hissa þó atvinnuleysingjar landsins spyrðu: Hvað er hæstv. umhvrh. að gera á Barbados? Hver borgar þetta? Hvert er hæstv. heilbr.- og trmrh. farinn? Hver borgar það? Þessar ferðir kosta atvinnuleysisbætur í 4--5 mánuði fyrir fólkið sem eigrar hér um göturnar og fær ekki að vinna. Er ekki, hæstv. forseti, tími til kominn að einhver taki á þessu sukki? Þetta sukk sér maður út um allt. Við sem störfum í nefndum á erlendum vettvangi og verðum að sinna því að sjálfsögðu sjáum það að hv. þm. verða að gera svo vel og vera á apexmiðum og sitja innan um almenning í flugvélum. Hverjir fylla Saga class? Það eru pótintátar úr ráðuneytunum, það eru starfsmenn verkalýðshreyfingarinnar sem fara á eilífa fundi út og suður. Hver hefur stjórn á þessu? ( Gripið fram í: Ber ekki að fagna þessu bara?) Nei, það á ekki að fagna þessu.
    Ég verð að segja alveg eins og er að að taka þátt í því að vera í minni hluta í heldur gerræðislegum meiri hluta hv. fjárln. gerir satt að segja lítið annað en ergja mann vegna þess að við fáum í fyrsta lagi ekki að komast að hlutum eins og vera skyldi auk þess sem áhugi er takmarkaður á því að taka á hinu raunverulega fjármálasukki sem á sér stað með þjóðinni.
    Það væri hægt að benda á ýmislegt á meðan ríkisvaldið getur ekki samið við lífsnauðsynlegar stéttir í landinu eins og meinatækna. Ætli það yrði ekki fljótlegt að finna það fé sem meinatæknar telja sig þurfa til að þeir geti fengið viðunandi samninga? Ég held að það væri fljótlegt að finna þá peninga.
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki lengja þetta meira en orðið er, en ég vil ítreka þá skoðun mína að ég held að það eigi að afleggja þennan sið að ríkisstofnanir færi fjármuni milli ára. Það eru engin rök í því máli að annars mundu þær bara eyða og spenna til þess að missa ekki spón úr aski sínum við næstu gerð fjárlaga.