Áburðarverksmiðja ríkisins

155. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 16:35:16 (7663)


[16:35]

     Jóhann Ársælsson (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Þetta hefur verið mjög löng vika og mér telst þannig til í huganum að við höfum verið hér að störfum á mánudegi fram á nótt og klukkan líkast verið á milli þrjú og fjögur um nóttina þegar störfum lauk. Á þriðjudagskvöld og fram á nóttina vorum við líka til á milli þrjú og fjögur ef ég man rétt. Á miðvikudegi vorum við að fara heim um miðnættið flest, býst ég við. Á fimmtudeginum lauk fundi ekki fyrr en milli fimm og sex um morguninn. Við unnum fram eftir degi í gær og fram á kvöld og nú hefur staðið yfir fundur frá því í morgun. Það er búið að ákveða að þingi verði ekki lokið fyrr en eftir helgi og ég tel alveg fráleitt að vera að teygja lopann hér yfir tveimur arfavitlausum málum þennan dag. Mér finnst komið alveg nóg og úr því að það er niðurstaðan að það verði ein vika enn í þinghaldinu þá hljóti menn að sjá að það er tilgangslítið að vera að teygja lopann fram eftir deginum.
    Ég tek undir með hv. 2. þm. Vestf. að ef menn ætla að halda þessari umræðu áfram þá verða auðvitað þeir menn að vera viðstaddir sem svara fyrir þá hluti sem hér er verið að ræða. En ég mæli ekki með að það verði farið að ónáða þá ágætu menn. Ég fer fram á að umræðunni verði hætt. Ég tel að um það sé samstaða, a.m.k. meðal þeirra þingmanna sem hér eru staddir núna og taka þátt í þessari umræðu og fylgjast með henni, að nú sé nóg komið. Ég óska eindregið eftir því við forseta að hann hlutist til um það að nú verði látið staðar numið í þessari umræðu.
    Ég held að það sé svo langt frá því að það sé hægt að halda því fram að einhverjar tafir hafi verið á þinghaldi. Það hefur áreiðanlega varla í sögu þingsins verið afgreitt annað eins af málum og gert var t.d. í gær í einni lotu. ( Gripið fram í: Og í dag.) Og í dag. Ég verð að segja alveg eins og er að ég held að það sé umhugsunarefni fyrir hv. þm. hvort þannig eigi eða megi standa að málum. Ég tel t.d. að atkvæðagreiðslur eins og voru hér í gær séu bara vítaverðar. Við eigum ekki að hafa svona mörg mál til atkvæða í einu lagi. Við eigum auðvitað að vanda okkur þannig við atkvæðagreiðslur að menn geti undirbúið sig undir þær og ekki sé hrúgað saman mörgum og stórum málum þannig að menn séu nánast að afgreiða þetta blindandi ef þeir ekki hafa til þess nægilegan undirbúning eins og var í gær. Það ráðrúm sem mönnum gafst til að undirbúa sig undir þær atkvæðagreiðslur var ekki nógu mikið.