Áburðarverksmiðja ríkisins

155. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 16:38:29 (7664)


[16:38]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Eins og hér hefur komið fram þá var stefnt að því að ljúka þinghaldi í dag og virtist allt benda til þess í morgun að það gæti gengið fyrir sig. Síðan hefur komið í ljós að svo er ekki en ég tel enga ástæðu til að halda áfram þeim tveimur málum sem forseti nefndi. Við erum búin að vinna meira en nóg þessa viku og alveg kominn tími til að gefa mönnum nú frí úr því ekki er verið að reyna að ljúka þinghaldinu í kvöld. Það er alveg sýnt að það verður haldið áfram fram eftir næstu viku og ég held að þingmenn séu búnir að fá sig fullsadda af þessari vinnuviku. Ég hef áður vitnað til vinnuverndarlaga í því sambandi. Ég ætla ekki að gera það aftur en ég hygg að mönnum séu þau lög kunn. Ég mælist eindregið til þess við virðulegan forseta að þinghaldinu verði frestað svo mönnum gefist þá kostur á að undirbúa sig fyrir næstu viku. Það er engin nauðsyn að halda áfram fram á laugardagskvöld þegar svo er málum komið.
    Verði það niðurstaða hæstv. forseta að halda áfram með þau mál sem hafa verið nefnd þá fer ég þess á leit að hæstv. fjmrh., hv. formaður landbn. og hv. formaður fjárln. verði viðstaddir umræðu um það mál sem við erum að ræða. Og við næsta mál á eftir, ef svo fer að því verði einnig haldið áfram, sem ég leggst eindregið gegn, fer ég þess á leit að starfandi formaður umhvn., hæstv. starfandi umhvrh. og jafnframt þeir þingmenn Sjálfstfl., og ég get nafngreint þá nokkra á eftir sem hafa haft mjög miklar efasemdir um það mál, verði einnig viðstaddir. Ég tel það fullkomna skyldu þeirra, bæði ráðherra og þingmanna sem ég hef verið að nefna, að vera viðstaddir þessa umræðu ef þessum málum á að ljúka.