Röð mála á dagskrá, afgreiðsla þingmála og viðvera ráðherra

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 10:32:12 (7677)


[10:32]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Við þingmenn sem erum í salnum kynntum okkur snemma í morgun dagskrá þingsins og sáum það að fyrst á dagskrá var atkvæðagreiðsla í ýmsum málum. Það hefur verið venja að slík atkvæðagreiðsla færi fram. Hins vegar tekur maður eftir því að hér vantar nánast alla ráðherra í salinn nema hæstv. sjútvrh. Hér vantar mikinn fjölda þingmanna stjórnarflokkanna. Fljótt á litið sýnist mér hlutfall stjórnarandstöðuþingmanna í salnum vera miklu hærra en nemur heildarhlutfalli stjórnarandstöðuþingmanna í þingmannaheildinni. Ég vil því spyrja forseta þingsins hver sé skýringin á því að þessari atkvæðagreiðslu er frestað. Er það virkilega þannig að ráðherrarnir hafi hvorki nennu né vilja til þess að mæta hér kl. 10.30 á mánudegi þegar stefnt er að þinglokum og stór hluti þingmanna ríkisstjórnarflokkanna hafi heldur ekki nennu eða vilja til þess að mæta til þings þótt hér sé boðaður þingfundur með dagskrá og atkvæðagreiðslur séu fyrstar á dagskránni? Það er náttúrlega fullkomlega út í hött að nánast öll ríkisstjórnin nema einn ráðherra sýni þinginu þá vanvirðingu að vera ekki mætt til þingfundar á lokadögum þingsins og sama gildi um meginhluta þingmanna stjórnarflokkanna. Ég vil þess vegna óska skýringar á því hver það er sem hefur óskað eftir frestun á þessum atkvæðagreiðslum og hvað forseti hyggst gera í því að ráðherrar og stór hluti þingmanna mætir ekki hér í upphafi fundar.