Röð mála á dagskrá, afgreiðsla þingmála og viðvera ráðherra

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 10:44:38 (7687)


[10:44]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram að það væri mjög eðlilegt og sjálfsagt að krefjast þess að ráðherrar Alþfl. séu viðstaddir þegar verið er að ræða þetta stóra mál þingsins, stjórn fiskveiða. Ég vil einnig taka undir það sem hv. 2. þm. Vestf. sagði áðan að hann nefndi það og fór þess á leit formlega hér í ræðustól að hæstv. ráðherra Sighvatur Björgvinsson yrði viðstaddur áður en umræðunni um stjórn fiskveiða yrði lokið því að hann var áður búinn að koma þeirri ósk á framfæri.
    Ég vil einnig ítreka það við virðulegan forseta að ég hafði reiknað með því að það yrðu þingflokksfundir hér milli kl. 1 og 3 eins og venja er til og hafði boðað til mín nokkra gesti á þann fund til viðræðna um ákveðið mál.