Röð mála á dagskrá, afgreiðsla þingmála og viðvera ráðherra

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 10:47:33 (7690)


[10:47]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Gísli S. Einarsson bar það á mig hér að það væri að tilefnislausu og nánast eins og hótfyndni að ég væri að óska eftir því að ráðherrar Alþfl. yrðu viðstaddir umræðuna um sjávarútvegsmál á þeim forsendum að það hefðu eingöngu verið þingmenn Alþfl. sem hefðu rætt sjávarútvegsmálin í vetur en ekki ráðherrarnir. Það er nú þannig að ráðherrarnir hafa málfrelsi víðar en í þingsalnum og hæstv. utanrrh., formaður Alþfl., hefur mjög víða í þjóðfélaginu í vetur látið í ljósi sínar skoðanir á sjávarútvegsmálum og talað stórt í þeim efnum. Hæstv. viðskrh. hefur gert það sama, hefur flutt skoðanir um gengismál, skattlagningu og annað sem snertir grundvallaratriði sjávarútvegsins á Íslandi og hefur ekkert verið að skafa utan af því utan þings og það hefur orðið tilefni til víðtækrar fjölmiðlaumræðu og yfirlýsinga forustumanna samtaka sjávarútvegsins um þá afstöðu sem sá ráðherra sem fer með málefni Seðlabankans og þar með gengsimál í ríkisstjórninni hefur verið að setja frá sér. Hv. þm. Gísli Einarsson verður því að skilja að það er ekkert óeðlilegt að menn vilji við lokaafgreiðslu þingsins á grundvallarfrumvörpum í málefnum sjávarútvegs á Íslandi fá að tala við þessa ágætu menn. Þeir geta ekki skotið sér á bak við það að þeir tröllríði hér þjóðfélaginu í umræðum um sjávarútvegsmál en þori aldrei í umræðu hér í þingsalnum um málið. Ég hélt satt að segja að það væri ríkisstjórninni kappsmál að fá þessi frumvörp afgeidd, en ef enginn ráðherra Alþfl. nennir að vera hér á landinu eða í þingsalnum við afgreiðslu þessara mála þá skil ég ekki hvers vegna þingið ætti að sitja yfir þeim. Við höfum auðvitað tekið eftir því að þrír ráðherrar Alþfl. hafa á undanförnum þingdögum hvorki nennt að vera á landinu né í þingsalnum til þess að vinna að afgreiðslu mála og flokkur sem kemur þannig fram við þingið er einfaldlega að lýsa því yfir að það sé honum ekki mikið kappsmál að fá frv. afgreitt og það er fullkomlega óeðlilegt að við þingmenn séum að afgreiða frumvörp ráðherra Alþfl. þegar þeir sjálfir nenna ekki einu sinni að vera viðstaddir afgreiðslu málsins.
    Fulltrúi Alþfl. í sjútvn., hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson, er farinn af þingi. Hann er farinn af þingi. Hann kann að hafa einhverjar ástæður fyrir því að hann þurfti að vera í sínu kjördæmi um síðustu helgi en ég leyfi mér að fullyrða það hér að það eru engar ástæður fyrir því að þingmaðurinn sé farinn af þingi. Hann hefur að vísu tekið inn varamann en það breytir því ekki að við getum ekki átt orðastað við fulltrúa Alþfl. í sjútvn. á þessu þingi. Við höfum líka fylgst með því hvernig sá þingmaður knúði fram breytingar á samkomulagi stjórnarflokkanna í fiskveiðimálum í einhverjum baktjaldaherbergjum fyrir skömmu.
    ( Forseti (SalÞ) : Tíminn er liðinn.)
    Við, a.m.k. sumir, vildum fá að ræða þá baktjaldasamninga við hv. þm. Gunnlaug Stefánsson.