Stjórn fiskveiða

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 10:53:29 (7694)

[10:53]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég hafði gert ráð fyrir því að annað mál yrði tekið fyrir á undan þessu. Samkvæmt dagskránni var gert ráð fyrir því að annað mál yrði tekið á undan. Ef ég man rétt þá var mál um flutningsjöfnuð á olíuvörum á undan á dagskránni. Ég var því ekki mjög fljótur í stólinn þegar mér var gefið orðið.
    Ég tek undir það líka að það er full ástæða til þess að aðalábyrgðarmaður að þeim breytingum sem verið er að gera á fiskveiðilöggjöfinni fyrir hönd Alþfl. sé hér staddur og ræði við þingmenn um þá niðurstöðu sem stjórnarflokkarnir eru að knýja fram. Hún birtist í nokkrum lagafrv. sem þingið hefur verið að fjalla um og á að ljúka með staðfestingu á hinum mikla sjóði, Þróunarsjóði sjávarútvegsins, sem á að vera til umræðu á eftir. Ég geri ráð fyrir því að sú umræða geti alls ekki farið fram og muni alls ekki fara fram nema ábyrgðarmenn fyrir hönd ríkisstjórnarflokkanna að því máli séu viðstaddir allan tímann og taki þátt í þeirri umræðu.
    Það sem fær mig til að biðja um orðið við 3. umr. um stjórn fiskveiða er sú niðurstaða sem hefur orðið af málinu við 2. umr. Við þá umræðu kom skýrt fram hvernig þeir flokkar sem eiga fulltrúa á Alþingi tóku afstöðu til hinna ýmsu tillagna, hvernig þeir líta á þessi mál í heildinni. Ég verð að lýsa yfir miklum vonbrigðum mínum með niðurstöðu atkvæðagreiðslnanna og alveg sérstaklega vil ég lýsa yfir vonbrigðum mínum með afstöðu manna til fyrstu brtt. okkar alþýðubandalagsmanna sem gekk út á það að styrkja í sessi þjóðareignarákvæðið í 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða. Þjóðareignarákvæðið stendur í 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða. En þróun mála í sambandi við þessi mál er þannig að það er ekki hægt að neita því að það er vafi á að til framtíðar litið verði þessi réttur í eigu þjóðarinnar sem slíkur. Ég benti á það við 2. umr. málsins að það eru nokkur mjög alvarleg viðvörunarmerki sem hafa sést. Ég minnti t.d. á að hæstv. ríkisstjórn hefur lagt fram frv. á Alþingi sem liggur inni í nefnd, hefur að vísu ekki komið þaðan og kemur vonandi aldrei, en það er frv. um samningsveð þar sem gert er ráð fyrir því að það megi veðsetja þjóðareignina. Það segir nú eitthvað um það hvaða augum menn líta þessa eign.
    Ég hef margsinnis bent á það hér á Alþingi að ákveðnar stjórnvaldsaðgerðir virðast þvingaðar vegna eignarréttar útgerðarmanna á fiskinum í sjónum. Þess er skemmst að minnast þegar þessi mikla skerðing á þorskaflaheimildum varð þá var ekki með nokkru móti hægt að fá þeirri skerðingu jafnað út þannig að það kæmi sanngjarnlega niður á öllum kvótanum. Ástæðan fyrir því var aðeins ein. Ástæðan var sú að það mátti ekki hrófla við þessum eignarrétti. Það var hægt þegar fyrsta stóra skerðingin varð að jafna henni þannig út að það var innan við 3% skerðing í þorskígildum á allan flotann sem hefði þýtt að þessi vandi sem við er að etja í útgerð á Íslandi hefði orðið allur miklu viðráðanlegri og hægt að taka á honum með almennum aðgerðum. Það mátti ekki gera. Auðvitað er umræðan um t.d. smábátana og annað því um líkt öll þvinguð af þessari hugsun að menn eigi fiskinn í sjónum.
    Hvað segir dómur Hæstaréttar frá í vetur í málefnum Drafnar frá Ísafirði? Hann segir okkur ekkert annað en það að menn eigi að meðhöndla aðganginn að fiskimiðunum sem eign útgerðarmanna. Þess vegna er er full ástæða til að gefa gaum að þessari þróun. Hún stefnir í þessa átt. Meðferð útgerðarmanna og þróunin í því hvernig þeir líta sjálfir á þennan rétt sinn til að fá að veiða fisk úr sjónum bendir eindregið til þess að þeir séu smám saman að komast á þá skoðun að þeir eigi að eiga þennan rétt og þeir eigi að hafa allan hagnað sem af þessum rétti getur orðið. Það mættu vissulega menn á fund sjútvn. Alþingis sem sögðu það fullum hálsi: Þessi réttur á að vera eignarréttur útgerðarmannanna. Þeirri skoðun hefur vaxið fylgi hjá útgerðarmönnum. Framtíðin í þessu ef fram heldur sem horfir verða áframhaldandi átök um þennan hlut málsins.

    Mér finnst það afskaplega athyglisvert að t.d. hv. alþýðuflokksmenn á Alþingi skyldu greiða atkvæði gegn þessari tillögu vegna þeirrar stefnu sem Alþfl. hefur boðað um þjóðareign á fiskimiðunum. Ég efast ekki um að hv. þm. Alþfl. átta sig á því hvernig þessi þróun hefur verið á undanförnum árum og í hvað stefnir. Það er mikill barnaskapur að mínu viti að halda að þessi þúsundkall sem er í Þróunarsjóðnum sem auðlindaskattur staðfesti raunverulegan eignarrétt þjóðarinnar á fiskinum í sjónum. Það er alls ekki. Ég tel að þarna þurfi menn að átta sig á því að stjórnkerfi fiskveiðanna, þetta raunverulega ígildi eignarréttar sem felst í lögunum um stjórn fiskveiða eins og þau eru framkvæmd, veldur því að í framtíðinni mun þjóðin missa yfirráðaréttinn yfir fiskinum í sjónum. Kröfur útgerðarmanna hljóta að verða að fá að ráða yfir þessari auðlind. Enda hafa menn svo sem fengið að heyra það að þeir telja sumir hverjir og hafa sett það skýrt og ákveðið fram að þeir eigi að stjórna þessum málum.
    Síðan verð ég að lýsa yfir alveg sérstakri óánægju minni og lýsa eftir svörum um það frá þeim hv. alþm. sem stóðu sextán saman að framlagningu frv. um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða hvers vegna þeir greiddu atkvæði gegn tveimur brtt. frá Alþb. sem voru raunverulega settar fram í sama augnamiði og tillögur sextánmenninganna. Fyrri tillagan um að það yrði mögulegt gefa veiðar frjálsar þannig að það væri hægt að ná því að veiða það sem búið væri að ákveða að veiða af tilteknum fisktegundum var sett fram þannig í tillögu Alþb. að það var engin hætta á því að það yrði farið fram úr tillögunum sem hefðu verið teknar ákvarðanir um. Og sú gagnrýni sem kom fram á frv. sextánmenningana var þá ekki til staðar á þessa tillögu. Það hefur ekki verið mikil sannfæring á bak við þennan tillöguflutning hv. þm. úr því að þeir greiddu atkvæði gegn þessari tillögu, þeir sátu ekki einu sinni hjá hvað þá annað heldur greiddu atkvæði gegn tillögunni.
    Eins var það með tillöguna um það að reyna að koma í veg fyrir það að afla væri kastað í sjóinn. Það var að vísu dálítið sérkennileg tillaga en ég tel að hún hefði getað gert mikið gagn ef hún hefði verið samþykkt. Hún hefði gert það gagn t.d., þetta var bara bráðabirgðaákvæði, að menn hefðu getað áttað sig á því hve stór sá vandi er, sem við erum að rífast um og hafa verið átök um í langan tíma, og hve mikil brögð eru að því að menn fleygi fiski í sjóinn. Ef svona tillaga hefði verið samþykkt og framkvæmd um eins árs skeið eða svo þá hefðu menn kannski getað áttað sig á því hve stór þessi vandi er. Eða er það kannski þannig að menn vilja ekki vita hvað vandinn er stór? Getur það hugsanlega verið? ( Gripið fram : Hvaða vitleysa.) Ég held að það geti vel verið að það sé þannig. Ef leyfilegt hefði verið að koma að landi með afla utan kvóta, sem líkur eru á að sé verið að henda í sjóinn núna að einhverju leyti, þá hefðum við fengið að sjá það hvað er mikið til í því sem menn eru að halda hér fram um það að fiski sé hent í sjóinn. ( StG: Hvað er það mikið?) Ég ætla ekki að vera með neina spádóma um það. Hins vegar hlustuðu hv. þm. sem eiga sæti í sjútvn. Alþingis á skipstjóra sem mætti á fund nefndarinnar og sagðist hafa hent 30% af aflanum í sjóinn í vetur. Hann var á þorskanetum. ( Gripið fram í: Fer hann ekki fanglsi fyrir?) ( StG: Hvaðan gerði hann út þessi maður?) Ég er ansi hræddur um að það væru æðimargir í fangelsi . . .  
    ( Forseti (SalÞ) : Ekki frammíköll.)
. . .   ef þau viðurlög væru við því að kasta fiski í sjóinn. ( StG: Er hann frá Akranesi?) Nei, hann er ekki frá Akranesi, þessi maður. ( StG: Er hann af Vesturlandi? Ég ætla ekki að upplýsa neitt um það hvaðan þessi maður er. Hann mætti á fund nefndarinnar og ég geri ráð fyrir því að hann geti sagt þetta víðar en á fundi sjútvn. úr því að hann lagði í að segja hv. alþm. frá þessu athæfi sínu. En þetta er auðvitað alvörumál og það er mikið alvörumál finnst mér að við skulum ljúka umfjöllun um stjórn fiskveiða án þess að það sé með nokkru móti tekið á þessum vanda og að menn skuli áfram hafa lögin um stjórn fiskveiða þannig útfærð að í þeim sé fólgin hvatning til að henda fiski í sjóinn, að menn hafi af því verulega hagsmuni að fleygja fiskinum í sjóinn aftur.
    Ég verð að segja það eins og er að mér fannst afstaða t.d. framsóknarmanna til atkvæðagreiðslnanna við 2. umr. um þetta mál segja sína sögu um hina raunverulegu afstöðu til þessara mála. Þar ætla ég að vekja sérstaka athygli á því að hv. framsóknarmenn greiddu atkvæði gegn tillögunni um að það yrði bannað í eitt ár að kaupa fleiri fullvinnsluskip til landsins. Eftir að hafa mætt hér hver um annan þveran í ræðustól og haldið því fram að tillögur stjórnarliða yrðu til þess að sú óheillaþróun mundi halda áfram með auknum hraða þá greiddu þeir atkvæði gegn einni tillögu um það að menn dokuðu nú við í eitt ár, stoppuðu og athuguðu hvort ekki væri skynsamlegt að ráða þessum málum með öðrum hætti heldur en við höfum verið að gera. Ég spyr: Hvaða nauðir rak hv. framsóknarmenn til að gera þetta? Mér er vel kunnugt um að í stjórnarliðinu eru menn kannski nauðbeygðir til að fylgja tillögum sem þeim er þvert um geð að fylgja. Ég hef orðið var við það, a.m.k. sýnist mér það. Ég veit auðvitað ekki nákvæmlega hver sannfæring manna er en ég veit þó hver sannfæring framsóknarmanna er. Þeir hafa komið í ræðustól og lýst henni. Þeir hafa miklar áhyggjur af því að það sé verið að flytja inn fullvinnsluskip og töldu að það væri það alversta í tillögum ríkisstjórnarflokkanna að vera að auka það. Það fer því ekkert á milli mála hver sannfæring framsóknarmanna er. Þeir aftur á móti greiddu atkvæði gegn tillögu um að þessi þróun yrði stöðvuð í eitt ár. ( Gripið fram í: Afdráttarlaus flokkur.) Greinilega afdráttarlaus flokkur en stefnumiðin virðast vera nokkuð á reiki og svolítið öðruvísi frá degi til dags. ( EgJ: Það er ekki alveg nýtt.) Það er ekki alveg nýtt, segir hv. þm. Egill Jónsson. Ég hef ekki fylgst svo náið með því en ég hef fylgst náið með þessari umræðu og mér finnst það afskaplega dapurlegt að menn skuli ekki muna það frá því deginum áður hver þeir segja um svo alvarlegt mál og það að verið sé að flytja vinnuna út á sjó og minnka hana verulega. Þegar menn hafa haldið langar ræður á hv. Alþingi um að þetta sé eitt af því allra versta í tillögum ríkisstjórnarflokkanna þá hefði ég talið að það væri undarleg niðurstaða hjá slíkum flokki að greiða atkvæði gegn tillögu sem gengur út á þetta. ( Gripið fram í: Ætlaði þingmaðurinn að ganga í Framsfl.?) Nei, hv. þm., það hefur ekki staðið til. ( Gripið fram í: Gæti breyst.) Afstaða mín til Framsfl. var ráðin þegar ég var 17 ára gamall, svo ég upplýsi þingmanninn um það. Þá tók ég ákvörðun um það hvar mín pólitíska lína ætti að liggja og síðan hef ég fylgt henni. Hv. þm. geta svo sem fengið að vita að það var töluvert erfið ákvörðun að taka ákvörðun um það hvaða stjórnmálaskoðun maður ætti að fylgja. Ég lagði töluverða vinnu í að velta þessu fyrir mér og ræða það við marga aðila áður en sú ákvörðun var tekin. Ég hef aldrei séð eftir þeirri ákvörðun og það hefur aldrei hvarflað að mér að ganga í Framsfl. Það get ég upplýst hv. þm. um.
    Jæja, þetta var kannski að fara frá efninu. Við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon flytjum brtt. til þess að reyna til þrautar að taka á einu af þeim vandamálum sem verið er að skapa eða réttara sagt er ekki verið að leysa í þessari lagasetningu um stjórn fiskveiða. Ég verð að segja það alveg eins og er að mér finnst það ömurlegt að stjórnarflokkarnir skuli hafa þannig afstöðu til þessara mála að þeir geta ekki einu sinni samþykkt tillögu um það að mynda réttlæti í einum hópi, þ.e. hjá þeim sem gera út báta undir sex tonnum. Hér hefur verið gengið til móts við sjónarmið þeirra sem eru á svokölluðum krókabátum, þ.e. bátum undir sex tonnum sem veiða með handfærum og línu. Það eru aðrir menn sem gera út og eru eitthvað í kringum 150 aðilar sem eru á þessum svokölluðu aflamarksbátum undir sex tonnum. Þeir margir hverjir eru í ákaflega miklum erfiðleikum vegna þess að þeir hafa farið allra manna verst út úr þorskskerðingunum. Forráðamenn smábátamanna hafa lagt það til að þessir aðilar fái að koma inn í krókakerfið. Sú tillaga var felld við 2. umr. málsins. Ég verð að segja það eins og er að ég lýsi yfir miklum vonbrigðum vegna þess að sú tillaga var felld og ég skil ekki hvers vegna í ósköpunum ekki mátti samþykkja þá tillögu því hún gekk ekki út á það að hópurinn samanlagt fengi einum einasta fiski meira en gert er ráð fyrir samkvæmt frv.
    Eru menn að taka afstöðu til mála af meinbægni hér á hv. Alþingi? Ég krefst þess að menn útskýri afstöðu sína gagnvart þessu atriði. Ég tel að þingmenn eigi fullan rétt á því að fá að vita hvers vegna í ósköpunum ekki mátti verða við þessari tillögu til þess að skapa, þó ekki væri nema í hópi þessara manna, eitthvert réttlæti.
    Það er ekki um marga möguleika að ræða til þess að reyna að koma til móts við þessa aðila nú eftir að búið er að afgreiða málið með þeim hætti sem það liggur fyrir og sú niðurstaða sem birtist í tillögu okkar er auðvitað ekki eins góð og sú hugmynd var að leyfa þessum aðilum að koma inn í krókakerfið, en hún mundi kannski hjálpa einhverjum þeirra sem verst eru staddir og hafa farið verst út úr þorskskerðingunum í þessum hópi. Tillagan, hæstv. forseti, hljóðar á þennan veg:
    ,,Á fiskveiðiárinu 1994--1995 skulu bátum undir 6 brl., sem stunda veiðar með aflamarki, heimilaðar veiðar utan kvóta með handfæri og línu tvo síðustu mánuði fiskveiðiársins. Heimild þessi takmarkast við að samanlagður heildarafli bátsins samkvæmt þessu ákvæði og aflamarki bátsins verði ekki meiri en 30 tonn á fiskveiðiárinu.
    Heimildin skal einungis ná til þeirra báta sem sjálfir hafa veitt upp sínar veiðiheimildir, enda sé aflahlutdeild þeirra ekki minni en hún var í janúar 1991. Sá afli, sem veiddur verður samkvæmt þessu ákvæði, skal teljast með afla þeirra báta sem stunda veiðar skv. 6. gr. Jafnframt skal bátum, sem stunda veiðar skv. 6. gr., gefinn kostur á að velja í stað veiðibanns í desember og janúar veiðibann í júlí og ágúst.``
    Ég vek athygli hv. þm. á því að það þurfti að prenta þessa tillögu upp þannig að ef þeir eru með í höndunum tillögu þar sem sú villa er að það er talað um janúar og febrúar í stað desember og janúar eins og það á að vera þá mun vera eftir að dreifa þessu uppprentaða skjali. Það er reyndar líka önnur orðalagsbreyting í þessu. Þessari tillögu var dreift með mjög skömmum fyrirvara á laugardag einfaldlega vegna þess að það var gert ráð fyrir því að þetta mál yrði tekið á dagskrá með mjög skömmum fyrirvara eftir afgreiðslu mála við 2. umr. og það urðu mistök við samningu tillögunnar og þau eru leiðrétt með því að prenta þetta skjal upp.
    Það sem þarna er verið að leggja til er raunverulega að þeir aflamarksbátar sem verst hafa farið út úr þessum árum fái tækifæri til að veiða í tvo mánuði af kvóta krókabátanna. Það er auðvitað umhugsunarefni hvort það er eðlilegt að setja fram slíka tillögu. Við gerum það samt. Einfaldlega vegna þess að það er illa hægt að horfa upp á þá niðurstöðu sem Alþingi hefur komist að. Ég veit að þeir sem stunda veiðar með krókum munu þola það og sætta sig við það þó að félagar þeirra, sem voru svo óheppnir að velja hina leiðina á sínum tíma, fái tækifæri til að veiða lítils háttar úr þeirra afla yfir sumarið. Ég trúi ekki öðru a.m.k. Ég tel að þetta gæti aðeins verið til hagsbóta fyrir þessa aðila og úr því að ekki er verið að leggja til að með neinum hætti sé verið að taka viðbótarafla frá því sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt til með sínum frumvörpum, þá fyndist mér það furðuleg niðurstaða, þó maður geti átt von á öllu í hv. Alþingi eftir síðustu atkvæðagreiðslu í þessum málum, ef þessi tillaga yrði felld líka.
    Og aðeins til að koma til móts við þennan hóp á móti er lagt til að þeir sem það vilja geti í stað þess að taka út veiðibann í desember og janúar fengið að velja þann kost að taka veiðibann í júlí og ágúst. Það mundi létta svolítið á þeirri auknu veiði sem yrði vegna þess að aflamarksbátar kæmu inn í veiði krókabátanna síðustu tvo mánuði fiskveiðiársins með því að einhverjir af þessum aðilum úr krókabátahópnum mundi færa sig til og veiða frekar í desember og janúar en í júlí og ágúst. Sú tillaga hefur komið fram frá þeim sjálfum og ósk um að fá að velja þarna á milli vegna þess að þá geti þeir nýtt sér það að veiða t.d. ýsu á línu í desember og janúar. Ég verð að segja það alveg eins og er að mér finnst menn vera ansi fastir í rullunni að það skuli ekki mega líta á tillögur eins og þessar en það hefur a.m.k. ekki fengist fram að þessu.
    Með því að leggja þessar tillögur fram saman þá tel ég að það muni verða meiri friður um þessa niðurstöðu, ef hún gæti orðið, sem er verið að leggja til að verði samþykkt.
    Ég skora á hv. alþm. að hugsa sig nú vel um gagnvart þessari tillögu, að fara nú ekki að fella hana líka vegna þess að það er ekki verið að biðja um nokkurn skapaðan hlut annan en lítils háttar réttlæti handa þessum mönnum innan þessa hóps. Það er undarleg niðurstaða ef hv. Alþingi kemst að því að ekki megi hreyfa þessum málum með neinum hætti.
    Það er nú ekki mín meining að fara að halda hér einhverja maraþonræðu við 3. umr. um þetta mál. Ég vil þó bara segja það þegar við sjáum fyrir þau lok þessa máls sem nú liggja fyrir að þau hafa sýnt og sannað fyrir hv. Alþingi og fyrir þjóðinni að það er ekki fyrirsjáanlegt í náinni framtíð að það verði friður um stjórn fiskveiða á Íslandi. Þar eru of stór mál óafgreidd og þar er svo mikill munur á skoðunum manna að það verður ekki samstaða um neina niðurstöðu á næstunni. Ég tel að þessi niðurstaða sem nú er fengin sé fyrst og fremst lítils háttar áfangasigur þeirra sem eru andstæðingar þessa kerfis og því hvernig það hefur þróast því allar aðalbreytingarnar sem nú eru samþykktar eru breytingar sem hafa orðið vegna gagnrýni þeirra aðila sem hafa verið að finna að þessu kerfi og verið að krefjast lagfæringa og breytinga á því.
    Það er fráleitt að halda því fram að það sé verið að festa aflamarkskerfið í sessi með þessari niðurstöðu. Umræðan í vetur hefur sagt allt annað. Það hefur sýnt sig í þessari umræðu allt frá því að tvíhöfða nefndin lagði af stað í sína ferð í kringum landið til að kynna sínar tillögur og fram á þennan dag að það er gífurleg og vaxandi andstaða við þetta fiskveiðistjórnunarkerfi og þó að Alþingi hafi nú eða ríkisstjórnin eða ríkisstjórnarflokkarnir orðið að hrekjast um nokkur fet undan sjómönnum þá mun það ekki vera endapunkturinn á þessum átökum því aðrir aðilar hafa þegar boðað andstöðu sína. Nú vill fiskvinnslufólk til dæmis að þess hlutur verði ekki látinn eftir liggja. Það verður sjálfsagt næsti hópur sem krefst breytinga á lögum um stjórn fiskveiða og þess atvinnuréttar sem fylgir því að fá að veiða úr sjónum miðað við það kerfi sem hér hefur verið sett upp. Þjóðin sjálf mun aldrei samþykkja það að þessi eignarréttur fái að grafa um sig með þeim hætti til framtíðar sem nú er að gerast, enda fráleitt. Það er líka gjörsamlega óásættanlegt að byggðarlög geti gengið á rétt annarra byggðarlaga, fyrirtæki á rétt annarra fyrirtækja, útgerðarmenn á rétt annarra útgerðarmanna, með lögvernduðum hætti sem verið er að gera í raun og veru með því að hafa eignarréttinn á því að veiða fisk úr sjónum eins og nú er. Þetta er einfaldlega óásættanlegt kerfi til frambúðar að þessu leyti.
    Það segir auðvitað ekkert um það að ekki sé hægt að stjórna fiskveiðum með því að úthluta aflamarki. Það segir bara að það er óásættanlegt að eignarrétturinn á fiskinum í sjónum sé með þeim hætti sem þetta kerfi gerir ráð fyrir. Og að við skulum sitja uppi með það að á Íslandi eru að myndast leiguliðar í útgerð sem verða að sætta sig við eitthvert verð sem er ákveðið af þeim sem eiga réttinn til að sækja fiskinn í sjóinn og að þeir skuli eiga réttinn til að sækja fiskinn í sjóinn hvar sem er á landinu þó þeir geti ekki fiskað sjálfir það sem þeim er úthlutað, það er óásættanlegt og það mun ég aldrei geta sætt mig við og það munu byggðarlögin víða um land aldrei geta sætt sig við. Það er gjörsamlega óásættanlegt að þau byggðarlög sem eru til vegna fiskimiðanna allt í kringum landið fái ekki að njóta þess þegar aflast betur og þegar friðanir, sem hafa staðið yfir árum saman, fara að skila árangri þá skuli þessi byggðarlög ekki fá að njóta þess vegna þess kerfis sem menn hafa komið hér upp. Það er auðvitað ekki boðlegt að þegar t.d. togaraútgerðin í landinu, svo maður taki dæmi af því að það er svoleiðis um þessar mundir, það getur snúið öðruvísi eftir einhvern tíma, getur ekki veitt þorskinn sinn þá geti hún bara kallað í einhverja aðra aðila og sagt: Gjörið svo vel, þið skuluð fá að veiða fyrir mig. Þið fáið að vísu ekki mjög hátt verð fyrir fiskinn en þið hafið ekkert að gera. Gjörið þið svo vel.
    Þannig er þetta í dag og að halda því fram að það sé einhver hagræðing í þessu fólgin eru mikil öfugmæli. Hin raunverulega hagræðing sem verið er að tala um en menn þora ekki að tala um upphátt felst í því að þessi fyrirtæki fái að vinna á lægri hráefnisverði. Það er hagræðingin sem raunverulega er verið að tala um. Ekki það að vinnslan hjá þessum fyrirtækjum skili einhverju meiru. Þvert á móti er það þannig að kostnaður eykst við þetta kerfi, kostnaður vegna fiskflutninga og annað því um líkt eykst en það eru bara aðrir aðilar sem greiða þann kostnað.
    Ég tel að þau skref sem hér eru stigin séu í rétta átt en þau eru svo agnarsmá að það er ekki hægt að sætta sig við þau nema í mjög skamman tíma og baráttan gegn þessu hlýtur að verða að halda áfram. Hún getur auðvitað aldrei endað með öðru en því að þjóðin tryggi sér til frambúðar sameiginlegan eignarrétt að fiskimiðunum. ( JGS: Hvað segja sjómennirnir þá?) Sjómenn eru bara hluti af þeim fjölda sem á hagsmuna að gæta í þessu og þeirra hagsmunir eiga ekki að vera neitt ofar hagsmunum annarra. ( JGS: Samkvæmt málflutningi þingmannsins.) Það er rangt. Ég held því fram að þjóðin eigi þetta. Ég held því fram að útgerðarmenn eigi ekki frekar að eiga atvinnuréttindi á Íslandi heldur en aðrir aðilar sem hafa atvinnu af sjávarútveginum en þetta kerfi hefur ákveðið það að einungis einn aðili, útgerðaraðilarnir í landinu, eigi þennan rétt. Menn hafa haft þetta kerfi þannig að það er mismunur innan sjávarútvegsins þannig að þeir útgerðarmenn sem eru bæði í fiskvinnslu og útgerð hafa séraðstöðu til að komast yfir veiðiheimildir. Og þeir útgerðarmenn sem eru eingöngu í útgerð eiga ekki nokkurn möguleika á að keppa við þá aðila sem geta á grundvelli þess að fá lægra hráefnisverð keypt veiðiheimildirnar.
    Það sér þetta hver einasti maður og ég efast ekki um það að hv. þm. Jóhannes Sigurgeirsson sér það að samkeppnisaðstaða venjulegra útgerðarmanna og þeirra byggðarlaga sem lifa fyrst og fremst á útgerð er engin gagnvart þeim aðilum sem geta nýtt sér veiðiheimildir til þess að fá lægra hráefnisverð eins og gert er. Ég get ekki skilið hvernig hv. alþm. og aðrir geta í raun og veru varið að svona skuli vera hægt að fara að. Ég tel fráleitt að setja upp slíkt kerfi sem þetta og ef það hefði verið gert í einhverri annarri atvinnugrein að búa til kerfi sem mismunar með þessum hætti þá býst ég ekki við að kerfið hefði staðið til lengdar.
    Til viðbótar vil ég segja það að mér finnst ákaflega merkilegt í hvers konar klemmu hv. framsóknarmenn upplifa sig í í þessari umræðu um stjórn fiskveiða. ( JGS: Við erum ekki í neinni klemmu.) Mér finnst það alveg makalaust. Þeir óðu hér fram með miklum yfirlýsingum um það að tillögur ríkisstjórnarinnar væru svo voðalegar að þær næðu bara ekki nokkurri átt. ( JGS: Við náðum fram breytingum.) Lögðu síðan fram tillögur um breytingar á einni grein. Og þegar ríkisstjórnarflokkarnir gerðu ekki annað en að hafa sína tillögu óbreytta og bæta við einni tillögu sem ætti að taka við af annarri eftir eitt ár, þá drógu þeir allar sínar tillögur til baka og greiða síðan atkvæði með öllu heila galleríinu. Það var nú ekki meira en það. ( IP: Það er nú ekki alveg rétt.) Það hefur oft verið logið meira í þessum ræðustól en það sem ég er að tala um. Ég heyri það að hv. þm. eru mér sammála í þessu efni.
    Ég verð að segja það alveg eins og er að það er ekki mikið samræmi í þessu. En hv. þm. Framsfl. munu auðvitað geta rétt sinn hlut svolítið í umræðunum um Þróunarsjóðinn. Þar er auðvitað hægt að halda áfram baráttunni. Ef sannfæringin þar er ekki meiri heldur en hún hefur verið í andstöðunni við breytingarnar á lögunum um stjórn fiskveiða þá verður það væntanlega ekki mjög löng umræða.
    Hv. 1. þm. Austurl., formaður Framsfl., lýsti því yfir í þeirri upphafsræðu sem haldin var eftir framsögu við 3. umr. að allt væri þetta nú nánast harla gott og hér væri verið að festa þetta fiskveiðistjórnunarkerfi en ég hef mótmælt því og ég ætla ekki að fara að endurtaka það eða fara neitt nánar út í þá umræðu. Ég tel að niðurstaðan sem við höfum hér fyrir framan okkur segi bara eitt, nákvæmlega það að ríkisstjórnarflokkarnir, sem ákváðu með hrossakaupum að lenda þessum málum eins og hér liggur fyrir, hafa orðið að hrekjast til baka. Aðalbreytingarnar sem nú er verið að gera á lögunum um stjórn fiskveiða eru þær breytingar sem sjómenn knúðu fram. Aðrir aðilar munu koma á eftir og það mun ekki verða staðar numið á meðan menn halda sig við það að hafa þetta óeðlilega stjórnunarkerfi í sjávarútveginum eins og hér er verið að halda áfram að verja, að þá mun baráttan halda áfram. Ég er sannfærður um að það mun vinnast sigur að lokum, en því miður virðast þeir sem mest eru að verja þetta kerfi ekki átta sig á því að ef þeir halda áfram með líkum hætti og þeir hafa gert og neita að taka rökum þeirra sem benda á að hér er í raun og veru verið að einkavæða auðlindina sem við eigum að eiga sameiginlega --- ef menn átta sig ekki á því hvað er þarna að gerast og halda áfram að verja kerfið þá munu þeir sitja uppi með það að allir þeir sem eru andstæðingar þessarar þróunar neyðast til þess að samþykkja það að lokum að hér verði farið að selja veiðileyfi.
    Er það það sem þeir aðilar vilja sem hafa viljað verja þetta kerfi? Ég hélt ekki. En því miður, svona lítur þetta út. Og ef menn ekki skynja þá hættu sem í því felst að taka upp sölu veiðileyfa, eins og lagt hefur verið til og því miður án þess að útfæra þá hugmynd þannig að það sé hægt að átta sig á því hvernig hún kemur út, þá held ég að menn séu að horfa inn í framtíð sem sé mjög fyrirkvíðanleg, því stjórnin á fyrirtækjum í sjávarútvegi yrði ansi erfið ef menn þyrftu að mæta hér á uppboði til þess að kaupa sér veiðileyfi með stuttu millibili til þess að tryggja sér verkefni fyrir sín fyrirtæki, hvort sem það er í útgerð eða fiskvinnslu.
    Hæstv. forseti. Mín lokaorð skulu vera þau: Hér er að vísu verið að setja lög um stjórn fiskveiða, en þau lög munu ekki endast lengi og það er af eðlilegum ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess hvernig ríkisstjórnin stofnaði til þessarar lagasetningar með undirbúningi sem var gjörsamlega óásættanlegur og síðan sú þróun sem varð í framhaldinu, þar sem allt sem um var verið að ræða breyttist meira og minna og lokaniðurstaðan var í raun og veru að setja lög um stjórn fiskveiða til þess að leysa deilur sjómanna og útgerðarmanna.